Apple og Facebook, tvö af stærstu tæknifyrirtækjum veraldar, hafa brugðið á það ráð að bjóða kvenkyns starfsmönnum sínum allt að 20 þúsund dali, um 2,4 milljónir króna, í styrk til að gera þeim kleift að frysta úr sér egg. Tilgangurinn er sá að gera konum sem vilja einbeita sér að frama innan fyrirtækjanna kleift að gera það án þess að fórna möguleikanum á því að eignast börn síðar á lífsleiðinni.
Facebook er þegar búið að ýta stefnunni úr vör og Apple mun gera slíkt hið sama í janúar næstkomandi. Business Insider greinir frá.
Alls starfa um áttunda þúsund manns hjá Facebook. Starfsmenn Apple eru töluvert fleiri, eða um 98 þúsund talsins.
Vilja laða fleiri konur í stjórnunarstöður
Umdeilt hefur verið á meðal fræðimanna á undanförnum árum hvort frysting eggja sé góð hugmynd og hvort hún skili þeim konum sem ákveða að fara þá leið tilætluðum árangri þegar þær vilja loks frjóvgast. Það hefur hins vegar færst mjög í aukanna, sérstaklega í Bandaríkjunum, að konur velji að fresta barneignum til að ná sér í menntun, frama eða öðrum markmiðum.
Þar sem frjósemi kvenna minnkar með aldrinum er talið líklegast til árangurs að frysta egg kvenna á meðan að þær eru á besta barnsburðaraldrinum, undir þrítugu. Þegar þær vilja síðan ganga með barn er eggjunum komið fyrir leginu sem eldist ekki með sama hætti og egg eða eggjaleiðarar. Með þessari aðferð geta konur borið börn vel fram á sextugsaldurinn.
Í umfjöllun Businessweek um málið kemur fram að rannsókn sem NYU háskólinn framkvæmdi í fyrra hafi leitt í ljós að þeim 183 konum sem tóku þátt og höfðu fryst egg sögðust 19 prósent að þeir hefðu líklegast átt börn fyrr en atvinnurekandi þeirra hefði sýnt meiri sveigjanleika. Kísildalurinn, heimavöllur helstu tæknifyrirtækja vesturheims, er þekktur fyrir eftirtekarverðan skort á konum í áhrifastöðum. Ein af röksemdum Facebook og Apple fyrir þessu óvenjulega skrefi er að fyrirtækin vonast til að laða að fleiri konur í stjórnunarstöður. Fyrirtækin eru, enn sem komið er, einu stóru atvinnurekendurnir í Bandaríkjunum sem brugðið hafa á það ráð að bjóða starfsmönnum sínum upp á kostnaðarþátttöku í eggjafrystingu vegna ástæðna sem eru ekki tengdar heilsufari.