Apple seldi 74,5 milljónir iPhone síma á síðustu þremur mánuðum ársins í fyrra, og munaði þar ekki síst um mikla sölu fyrir jólin í desember. Þessi sala var langt umfram væntingar greinenda á markaði sem skilaði fyrirtækinu metuppgjöri. Heildartekjur fyrirtækisins á síðasta fjórðungi ársins voru 74,6 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 9.700 milljörðum króna. Hagnaðurinn á fjórðungnum nam ríflega átján milljörðum Bandaríkjadala, eða um 2.340 milljörðum króna.
Þetta þýðir að Apple seldi ríflega 827 þúsund iPhone síma á degi hverjum, að meðaltali, á síðustu þremur mánuðum ársins.
Apple seldi að meðaltali ríflega 827 þúsund síma á hverjum degi, síðustu þrjá mánuði ársins í fyrra. Salan náði hámarki í kringum jólin.
Í tilkynningu með uppgjöri félagsins fyrir þessa þrjá mikilvægu mánuði í starfsemi félgasins er haft eftir Tim Cook, forstjóra Apple, að eftirspurnin eftir iPhone 6 símum Apple væri gríðarlega mikil, og þessi mikla sala á tækjum á síðustu mánuðum ársins væri til marks um það.
Apple hafði sjálft gefið út í rekstráætlunum að heildartekjur á síðustu þremur mánuðum ársins gætu orðið á biliu 52 til 55 milljarðar Bandaríkjadala, samkvæmt umfjöllun Inc.
Apple er nú verðmætasta hlutafélag í heimi, en markaðsvirði þess nemur nú um 651 milljarði Bandaríkjadala, en markaðsvirði félagsins jókst um næstum 50 prósent í fyrra.