Sjávarútvegsfyrirtækið Arctic Oddi mun flytja starfsemi sína frá Flateyri í húsnæði sem var í eigu Vísis á Þingeyri. Þar mun fyrirtækið sinna vinnslu og pökkun á eldisfiski og sinna frekari uppbyggingu fyrir fiskeldi sitt. Þar með lýkur aðkomu Vísis að útgerð og vinnslu á Þingeyri sem félagið hefur staðið að síðustu 15 ár, en Vísir mun stunda fiskvinnslu á Þingeyri fram í mars á næsta ári. Samhliða mun útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Valþjófur taka við fasteignum og tækjum Arctic Odda á Flateyri, en fyrirtækið mun einbeita sér að fullvinnslu bolfisks, frá Flateyri og Þingeyri.
Kveðið er á um breytingarnar í samkomulagi sjávarútvegsfyrirtækjanna þriggja, sem fjölmiðlum var tilkynnt um í dag. Í fréttatilkynningu er samkomulagið sagt styrkja stoðir atvinnulífsins á Flateyri og Þingeyri til langframa, og um leið sé óvissu sem ríkt hafi um atvinnustarfsemi á stöðunum að undanförnu eytt.
Starfsemi Arctic Odda á Þingeyri kallar á um 15 störf í upphafi, en samkvæmt fréttatilkynningu mun þeim fjölga í hlutfalli við uppbyggingu fyrirtækisins. Þá skapast um 20 ársstörf hjá Valþjófi ehf. við bolfisksvinnslu fyrirtækisins á Flateyri.
Samkomulag fyrirtækjanna er gert með fyrirvara um samþykki Byggðastofnunar sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir um miðjan desember.