Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka hámarkshlutfall veðsetningar á fasteignalánum úr 85 prósent í 80 prósent. Fjármálaeftirlitsnefnd bankans hefur einnig ákveðið að fella brott tilmæli sín til fjármálafyrirtækja um að greiða ekki arð.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu nefndanna tveggja, sem voru birtar á vef Seðlabankans í morgun. Samkvæmt þeim er viðnámsþróttur bankanna mikill, þar sem staða þeirra sé sterk og eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra sé vel yfir lögbundnum lágmörkum.
Hins vegar sagði fjármálastöðugleikanefnd að hækkandi fasteignaverð hefði farið saman við aukna skuldsetningu heimilanna og væri því rétt við núverandi aðstæður að lækka veðsetningarhlutfall fasteignalána. Þó bætti hún við að hámarkshlutfall fyrir fyrstu kaupendur verði óbreytt í 90 prósentum.
Nefndin samþykkti á fundi sínum að setja sérstakar reglur um afleiðuviðskipti á grundvelli nýrra laga um gjaldeyrismál. Samkvæmt yfirlýsingu nefndarinnar fela reglurnar í sér einföldun og minni takmarkanir en áður var.
Sömuleiðis ákvað nefndin að taka nánari til skoðunar hvort hafa ætti greiðslubyrðarhlutfall til hliðsjónar í fasteignalánum til neytenda. Samkvæmt nýsamþykktum lögum gæti slíkt hámark verið 25 til 50 prósent af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum neytenda.
Þrátt fyrir að fjármálaeftirlitsnefnd hafi látið af tilmælum sínum við að hætta við arðgreiðslur vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga brýndi hún fyrir fjármálafyrirtækjum að gæta áfram ýtrustu varfærni við ákvörðun um útgreiðslu arðs og gerð áætlana um kaup á eigin hlutabréfum.