Tekjur Íslendinga af arðgreiðslum jukust um fimm milljarða króna í fyrra, á sama tíma og skattbyrðin á fjármagnstekjur þeirra lækkaði. Þetta kemur fram í nýbirtumtölum frá Ríkisskattstjóra um opinbera álagningu á einstaklinga.
Samkvæmt tölunum námu fjármagnstekjur einstaklinga hér á landi 115,7 milljörðum króna í fyrra og drógust þær saman um rúmlega 6 milljarða króna milli ára. Mesti samdrátturinn var í vaxtatekjum af innistæðum í bönkum, en þær drógust saman um tæp 43 prósent á tímabilinu. Alls nam samdrátturinn í vaxtatekjum rúmum 6 milljörðum króna
Tekjur af söluhagnaði drógust einnig saman töluvert, eða um fimm milljarða króna, líkt og sjá má á mynd hér að neðan. Þrátt fyrir það kemur fram í tilkynningu fjármálaráðuneytisins að fleiri fjölskyldur hafi talið fram söluhagnað í fyrra heldur en árið á undan.
Langstærsti hluti fjármagnstekna í fyrra var þó frá arðgreiðslum, en þær námu 51 milljarði króna og jukust um 11,7 prósent milli ára. Samkvæmt fjármálaráðuneytinu skýrist hækkunin að öllu leyti af auknum arði af erlendum hlutabréfum, en líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um frestuðu fjölmörg íslensk fyrirtæki sínum arðgreiðslum vegna heimsfaraldursins.
Léttari skattbyrði en dreifist á færri
Samhliða hærri arðgreiðslum minnkaði skattbyrði þeirra, þar sem ekki þarf lengur að greiða skatt af þeim ef upphæð þeirra eru undir frítekjumarki, samkvæmt nýjum lögum sem samþykkt voru á alþingi í lok síðasta árs. Lögin fólu einnig í sér tvöföldun frítekjumarksins, úr 150 þúsund krónum í 300 þúsund krónur.
Vegna lagabreytinganna hefur álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga lækkað um 7,9 prósent milli ára. Heildarhlutfall skattheimtu af öllum framtöldum fjármagnstekjum hefur sömuleiðis lækkað lítillega, úr 19,8 prósentum í 19,3 prósent.
Þrátt fyrir lægri heildarskattbyrði hefur hækkun frítekjumarksins leitt til þess að færri greiða fjármagnstekjuskatt en áður. Því hefur meðaltal fjármagnstekjuskatts á hverja fjölskyldu sem fær meiri tekjur en sem nemur frítekjumarkinu hækkað, úr rúmum 600 þúsund krónum árið 2019 tæp 900 þúsund krónur í fyrra.