Ari Edwald, sem tók nýverið við starfi forstjóra Mjólkursamsölunnar (MS), segir það mikinn misskilning að MS vilji ekki að minni aðilar á mjólkurvörumarkaði fái „þrifist eða þeir séu okkur einhver þyrnir í augum.“ Hann segist fagna aukinni nýrri samkeppni og að hún trufli MS ekki á neinn hátt. Um litla aðila sé að ræða sem hafi í raun engin áhrif á markaðinn í heild sinni. Ari segir að almennt sé umræðan um samkeppnismál á undarlegum stað. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Ara í ViðskiptaMogganum í dag.
Samkeppniseftirlitið sektaði MS um 370 milljónir króna fyrir samkeppnisbrot gegn mjólkurbúinu Kú í september í fyrra. Að mati eftirlitsins hafði MS misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja samkeppnisaðilum Kú, sem eru tengdir MS, hrámjólk á 17 prósent lægra verði en því sem Kú bauðst.
Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komst að þeirri niðurstöðu í desember að fella yrði úrskurðinn úr gildi, vegna þess að MS upplýsti ekki eftirlitið um samning á milli fyrirtækisins og Kaupfélags Skagfirðinga, sem á hlut í MS og er einn þeirra aðila sem fékk hrámjólk á lægra verði. MS lagði samninginn ekki fram fyrr en við málflutning fyrir áfrýjunarnefndinni, þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hefði ítrekað beðið um skýringar og gögn frá fyrirtækinu.
Áfrýjunarnefndin taldi að henni væri því skylt að vísa málinu aftur til Samkeppniseftirlitsins. Áfrýjunarnefndin tók enga efnislega afstöðu til málsins heldur taldi að ekki hefðu komið fram fullnægandi skýringar af hálfu MS á framkvæmd samningsins fyrir nefndinni. Þess vegna ætti Samkeppniseftirlitið að rannsaka málið aftur, með hliðsjón af umræddum samningi, og komast að nýrri niðurstöðu um hvort MS hefði brotið samkeppnislög. Sú rannsókn stendur enn yfir.
Segir aðstæður lítilla fyrirtækja hafa batnað verulega
Í viðtalinu segir Ari að hann telji að aðstæður fyrir lítil fyrirtæki sem vilji framleiða úr mjólk hafi batnað verulega undanfarið með ákvörðun verðlagsnefndar í mars 2013 þar sem verð á hrámjólk frá samsölunni var ákvarðað með aðstoð óháðra sérfræðinga. „Svo er ekkert sem bindur fyrirtæki í að kaupa mjólkina frá okkur, það er líka hægt að kaupa hana beint frá bændum á sama verði og MS.“
Það eru þó ekki allir sammála Ara í því að MS beiti sér ekki gegn minni aðilum né að aðstæður fyrir þá hafi batnað verulega. Fjárfestirinn Jón Von Tetzchner, sem fjárfesti í litla mjólkurvöruframleiðandanum Örnu sem einbeitir sér að því að framleiða vörur án laktósa, lýsti viðbrögðum MS við stofnun fyrirtækisins í nýlegu viðtali við Kjarnann. Þar sagði hann: Þegar Arna var að undirbúa sinn aðgang að markaðnum þá þurfti fyrirtækið að hafa samband við MS til að kaupa hrámjólk frá þeim, grunnvöruna sem þeir þurfa. Mér finnst það verðlag sem sett er á hana er út í hött. Arna þarf nánast að borga það sama fyrir vöruna og er sett á hana út í búð. Það er augljóslega mjög erfið staða. Þar að auki svaraði MS áður en Arna fór á markað með því að setja laktósafríar vörur á markað. Af hverju var ekki hægt að hleypa litlu fyrirtæki inn á markaðinn? Af hverju þurfti einokunarrisinn allt í einu að fara að bjóða upp á sambærilega vöru og það? Það er ekki þannig að Arna sé að ógna MS og varan er fyrir sérstakan hóp.“