Arion banki segir að ekkert tilboð hafi borist í hlutabréf í Símanum á genginu 3,45 krónur á hlut og að "á engum tímapunkti bárust bankanum tilboð sem voru hærri en bankinn seldi á." Þetta kemur fram í tilkynningu sem bankinn hefur sent frá sér vegna fréttar Morgunblaðsins í morgun um að ónefndur lífeyrissjóður hefði falast eftir því að kaupa hlut í Símanum á því gengi fyrr á þessu ári.
Mun hærra tilboð
Í Morgunblaðinu í morgun sagði að lifeyrissjóður hefði falast eftir því að kaupa hlutabréf í Símanum á genginu 3,45 af þeim hluthöfum sem eignuðust hlutabréf í Símanum í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækisins árið 2013. Tilboð hafi borist þessum hluthöfum í maí frá ótilgreindum lífeyrissjóði fyrir milligöngu MP banka, rúmum þremur mánuðum áður en Arion banki seldi hópi stjórnenda Símans og meðfjárfestum fimm prósenta hlut á genginu 2,5 krónur á hlut. Tilboðið í maí hafi þannig verið 38 prósent hærra en söluverðið til stjórnenda og fjárfestanna í ágúst.
Í umfjöllun blaðsins sagði að ólga sé innan lífeyrissjóðakerfisins vegna útboðs Arion banka á Símabréfum. Margir séu ósáttir við að hafa ekki átt tækifæri á að kaupa í Símanum fyrir útboðið, en í aðdraganda þess seldi Arion banki fimm prósenta hlut til stjórnenda og meðfjárfesta þeirra annars vegar og vildarviðskiptavinum sínum fimm prósenta hlut einnig. Fram kom í frétt Morgunblaðsins að margir lífeyrissjóðanna séu með fjármuni í stýringu hjá eignastýringarfyrirtækinu Stefni, dótturfélagi Arion banka, og á vettvangi stjórna sjóðanna hafi komið til tals að færa viðskipti sín annað í mótmælaskyni. Óánægja sjóðanna er rakin til útboðs Símans og fyrri útboða.
Ver söluferlið
Í ágúst síðastliðnum var tilkynnt um sölu Arion banka á fimm prósenta hlut í Símanum til Orra Haukssonar, forstjóra félagsins, annarra framkvæmdastjóra þess og innlendra og erlendra fjárfesta. Kaupgengi var 2,5. Þegar leið að útboði á 21 prósenta hlut, sem fram fór í síðustu viku, bauð bankinn síðan vildarviðskiptavinum eignarstýringarþjónustu bankans að kaupa samtals fimm prósenta hlut á genginu 2,8 krónur á hlut. Meðalgengi í útboðinu var síðan 3,3 krónur á hlut.
Arion banki hefur verið gagnrýndur fyrir hvernig staðið var að sölunni. Greint var frá því í gær að Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafi sent Bankasýslu ríkisins spurningarlista í níu liðum og meðal annars spurt hvort salan hafi mögulega falið í sér markaðsmisnotkun.
Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion banka, tjáði sig um söluferlið í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær og sagði gagnrýni á það vera „eftiráspeki“. Ekki hafi verið hægt að gefa sér niðurstöðu útboðsins fyrirfram. Hann benti meðal annars á að báðir hóparnir sem keyptu fyrir útboðið séu bundnir söluhömlum, stjórnendur og meðfjárfestar til ársbyrjunar 2017 og vildarviðskiptavinir í þrjá mánuði eftir skráningu. Auðvelt sé að gagnrýna bankann fyrir að hafa selt hluti á gengi sem var lægra en útboðsgengi en þær upplýsingar hafi ekki legið fyrir í upphafi ferlisins.