Arion banki hagnaðist um 5,8 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs, sem er mjög svipuð upphæð og hann hagnaðist um á sama tímabili í fyrra, þegar hagnaðurinn var sex milljarðar króna. Hagnaður bankans á síðasta ári í heild var 28,6 milljarðar króna og því hefur hann hagnast um 34,4 milljarða króna á 15 mánuðum.
Arðsemi eigin fjár bankans var 12,7 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins, sem er aðeins meiri arðsemi en var á sama tímabili í fyrra, þegar hún var 12,5 prósent, en minna en hún var heilt yfir á síðasta ári þegar hún var 14,7 prósent.
Þetta kemur fram í uppgjöri Arion banka fyrir fyrsta ársfjórðung sem birt var í dag. Þar segir að bankinn hafi skilað alls 26,8 milljarða króna til hluthafa bankans í formi arðgreiðslna vegna frammistöðu síðasta árs og með endurkaupum á hlutabréfum þeirra. Í tilkynningunni til Kauphallar er greint frá því að samningur um sölu á Valitor til Rapyd hafi verið framlengdur til 1. júní 2022. „Vegna þeirra tafa sem orðið hafa á lúkningu viðskiptanna hefur Rapyd greitt Arion banka 10 milljónir Bandaríkjadala í viðbótargreiðslu, sem færð verður til tekna við samningslok.“
Eigið fé 173 milljarðar króna
Vaxtatekjur Arion banka voru 17,5 milljarðar króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 sem er 48,3 prósent hærri vaxtatekjur en bankinn var með á fyrsta ársfjórðungi 2021, þegar þær voru 11,8 milljarðar króna. Vaxtakostnaður eykst þó einnig umtalsvert að hreinar vaxtatekjur vaxa um 2,2 milljarða króna ef miðað er við sama tímabil í fyrra.
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands er haft eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, að útlánavöxtur hafi verið umtalsverður á fjórðungnum, sérstaklega þegar kemur að lánum til fyrirtækja. „Á síðustu tveimur árum hefur Arion banki veitt um 36 milljörðum króna í lán til fyrirtækja sem síðar hafa verið seld til stofnanafjárfesta eins og lífeyrissjóða. Slíkt gefur okkur aukið svigrúm til frekari lánveitinga til fyrirtækja og eykur fjölbreytileika í eignasafni lífeyrissjóða.“
Eiginfjárhlutfall bankans var 22,9 prósent í lok mars, eigið fé 173 milljarðar króna og eignir 1.341 milljarður króna.
Kostnaðarhlutfall, sem mælir hvað kostnaður við rekstur bankans er stór hluti af tekjum hans, heldur áfram að lækka og er nú 42,7 prósent. Einfaldasta leiðin til að ná þessu hlutfalli niður er að fækka starfsfólki, en 753 störfuðu hjá Arion banka í lok mars. Það eru 19 færri en gerðu það á sama tíma í fyrra.
Markaðsvirði bankans var 255 milljarðar króna við lok viðskipta í dag.