Arion banki hagnaðist um 22,6 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins í ár. Það er umtalsvert meiri hagnaður en var á sama tímabili í fyrra þegar hagnaðurinn var 10,1 milljarður króna. Þessi aukning á hagnaði á sér stað þrátt fyrir að tekju- og bankaskattur hafi hækkað um 3,4 milljarða króna á milli ára. Eigið fé bankans er nú 160 milljarðar króna og eignir hans eru metnar á 942 milljarða króna.
HB Grandi skýrir aukin hagnað að mestu
Aukningin á hagnaði skýrist á nokkrum mismunandi þáttum. Sá stærsti er afkoma af aflagðri starfsemi, sem skilar 6,6 milljörðum króna í tekjur á árinu 2014. Afkoma vegna hennar var einungis þrjár milljónir króna árið áður. Þarna munar mest um sölu á 18,8 prósent hlut bankans í HB Granda.
Hreinar fjármunatekjur eru líka mun meiri á fyrstu níu mánuðum þessa árs en þær voru á sama tímabili í fyrra. Alls eru þær 5,9 milljarðar króna nú en voru 954 milljónir króna í fyrra. Um er að ræða tekjur vegna hækkunar á hlutabréfum sem bankinn á, aðallega í HB Granda og smásölurisanum Högum.
Saman útskýra því salan á hlut í HB Granda, og hækkun hlutabréfa sem Arion banki á enn í því fyrirtæki og Högum, þorra þeirrar hagnaðaraukningar sem orðið hefur hjá bankanum á þessu ári.
Launagreiðslur aukast um sex prósent milli ára
Þóknanatekjur vaxa um 22 prósent á milli ára og eru nú 10,1 milljarður króna. Aukningin er einkum tilkomin vegna hærri þóknanatekna á greiðslukortum og af starfsemi fjárfestingabankasviðs. Þá skilar hrein virðisbreyting á lánum vegna endurskipulagningar bankanum um 2,9 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Virðisbreyting eigna var neikvæð á sama tímabili í fyrra.
Laun og launatengd gjöld hækka á milli ára um 587 milljónir króna, eða sex prósent. Alls er bankinn búinn að greiða út tíu milljarða króna í laun og launatengd gjöld það sem af er ári.