Arion banki er nú skráður fyrir 10,27 prósent hlut í fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu Sýn. Hlutur bankans í félaginu hefur á einni viku farið úr því að vera 3,4 prósent í ofangreint hlutfall. Nær öruggt er að Arion banki sé ekki að kaupa hluti í Sýn fyrir eigin bók heldur sé hluturinn sem skráður er á bankann tilkominn vegna framvirkra samninga sem bankinn hefur gert við valda viðskiptavini sína um kaup á hlutabréfum í Sýn.
Í framvirkum samningi felst að Arion banki kaupir hlutinn en gerir samhliða samning við viðskiptavin sinn um að kaupa hlutinn af sér á tilteknum degi í framtíðinni á fyrirfram ákveðnu verði. Hinn endanlegi eigandi hlutarins kemur því ekki fram á hluthafalista þess félags sem keypt er í fyrr en framvirki samningurinn er gerður upp.
Sýn er stór leikandi á fjölmiðlamarkaði. Fyrirtækið á og rekur sjónvarpsstöðvarnar Stöð 2 og Stöð 2 Sport, vefmiðilinn Vísi og útvarpsstöðvarnar Bygljuna, FM957 og X977. Innan veggja fyrirtækisins er rekin stór fréttastofa, sameiginleg fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Þá á Sýn einnig fjarskiptafyrirtækið Vodafone.
Arion banki kom að fjármögnun á kaupum Gavia Invest
Þessi þróun er nýjasti liðurinn í baráttu um áhrif innan Sýnar sem farið hefur fram á síðustu dögum. Í byrjun síðustu viku var greint frá því að Heiðar Guðjónsson, sem hafði um árabil verið á meðal stærstu hluthafa Sýnar, verið stjórnarformaður þess á árunum 2014-2019 og setið í forstjórastóli félagsins frá því snemma árs 2019, hefði selt allan 12,72 prósent hlut sinn í félaginu á tæplega 2,2 milljarða króna. Heiðar sagði í tölvupósti til starfsfólks að honum hefði verið ráðlagt að minnka við sig vinnu af heilsufarsástæðum.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans kom Arion banki að kaupum hópsins á hlut í Sýn og fjármagnaði þau að hluta.
Í gærmorgun keypti svo annar hópur fjárfesta um sex prósent hlut í Sýn fyrir um einn milljarð króna. Gengið var frá viðskiptunum fyrir opnun markaða á þriðjudag. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) var meðal seljenda en sjóðurinn seldi um 1,9% hlut fyrir 320 milljónir króna.
Viðmælendur Kjarnans sem starfa á markaði segja að óhjákvæmilegt sé annað en að miklu uppkaup á bréfum í Sýn á örfáum dögum tengist tilraun Gavia-hópsins til að ná yfirráðum yfir félaginu.
Gavia Invest fer enda með atkvæðisrétt fyrir 16,08 prósent hlut í Sýn, sem er vel umfram þann hlut sem félagið er skráð fyrir, og fór fram á það í síðustu viku að stjórn Sýnar boðaði til hluthafafundar í félaginu. Þar ætlar hópurinn að krefjast þess að ný stjórn verði kjörin og að hann fái tvö af fimm stjórnarsætum.
Stærstu hluthafar Sýnar fyrir utan áðurnefnda eru íslenskir lífeyrissjóðir. Gildi lífeyrissjóður á 12,83 prósent hlut, Lífeyrissjóður verslunarmanna 10,92 prósent, LSR á samtals 8,2 prósent og Birta lífeyrissjóður 5,11 prósent. Þessir fjórir stóru sjóðir eiga því samtals um 37 prósent í Sýn. Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa fulltrúar Gavia Invest fundað með einhverjum þeirra sjóða sem eru fyrirferðamiklir í hluthafahópnum. Það gerðist í síðustu viku. Á þeim fundum komu þó ekki fram neinar upplýsingar um áform félagsins umfram það að ætla sér að sækjast eftir stjórnarsætum. Orðrómur er þó um að Gavia Invest vilji fá sinn mann í forstjórastólinn og er Jón Skaftason þá helst nefndur.
Vilji til að selja fleiri innviði á þessu ári
Rekstur Sýnar hefur heilt yfir ekki gengið vel á síðustu árum. Félagið seldi óvirka farsímainnviði sína í fyrra til bandarísku fjárfestanna Digital Bridge og hagnaðurinn af þeirri sölu var 6,5 milljarðar króna, en 2,5 milljarðar af þeirri upphæð var bókfærður í fyrra.
Söluhagnaðurinn af innviðunum gerði það að verkum að Sýn skilaði hagnaði á árinu 2021 í fyrsta sinn frá árinu 2018. Án einskiptishagnaðar af sölunni hefði Sýn skilað tapi á árinu 2021.
Sýn hagnaðist svo um 207 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 og margt í rekstrartölum félagsins bendir til þess að undirliggjandi rekstur sé að batna umtalsvert frá því sem áður var. Sýn birtir uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung í lok ágústmánaðar. Félagið hefur líka verið að skila peningum sem féllu til vegna sölu á eignum til hluthafa í gegnum endurkaup á bréfum, en alls námu þau um tveimur milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins.
Í viðtali við Frjálsra verslun í mars sagði Heiðar, þá enn forstjóri og stór hluthafi í Sýn, að verið væri að skoða að selja ýmsa aðra innviði á þessu ári. „Við erum að skoða að selja svokallað IPTVkerfi, sem myndlyklarnir okkar keyra á. Við höfum einnig tala um að selja hluta af gagnaflutningskerfinu okkar, það er fastlínukerfið okkar, sem við rekum á um 800 stöðum í kringum landið.“
Varfærnislegt mat á söluhagnaði á þessum innviðum sé um sex milljarðar króna að sögn Heiðars.
Þeim fækkar sem leigja myndlykil til að horfa á sjónvarp
Fjöldi þeirra sem er með sjónvarp yfir IP-net, sem er það sjónvarp sem miðlað er í gegnum ADSL- eða ljósleiðaratengingar í myndlykla sem leigðir eru af fjarskiptafyrirtækjum, hefur fækkað umtalsvert á undanförnum árum samhliða því að streymisveitur á borð við Netflix, Amazon Prime, Viaplay og Disney+ hófu innreið sína inn á íslenskan sjónvarpsmarkað. Hægt er að horfa á slíkar í gegnum öpp á sjónvarpi og öðrum tækjum án þess að myndlykil þurfi til.
Þetta má lesa úr tölfræðiskýrslu Fjarskiptastofu um fjarskiptamarkaðinn sem sýnir stöðuna í lok árs 2021.
Það tap sem orðið hefur á myndlyklaáskrifendum hefur að mestu orðið hjá Vodafone, sem selur sjónvarpsáskrift að Stöð 2 og hliðarstöðvum hennar. Um mitt ár 2017 var fjöldi áskrifenda að myndlyklum Vodafone 41.423 en í lok síðast árs var sá fjöldi kominn niður í 31.377. Áskrifendum hefur því fækkað um rúmlega tíu þúsund á tímabilinu, eða um tæplega fjórðung.
Við bætist að Sýn keypti 365 miðla á árinu 2017, en síðarnefnd fyrirtækið var með 5.914 áskrifendur að sjónvarpi yfir IP-net um mitt það ár. Þegar sá fjöldi er tekin með í reikninginn hefur áskrifendum Vodafone fækkað um þriðjung. Markaðshlutdeild Vodafone er nú 37 prósent.
Vert er að taka fram að hægt er að vera áskrifandi að sjónvarpsþjónustu án þess að leigja myndlykil með því að nálgast hana í gegnum app. Engar tölur eru í skýrslu Fjarskiptastofu um heildarfjölda áskrifenda hjá Símanum eða Sýn.