Arion banki hefur gefið út og selt skuldabréf fyrir 300 milljónir evra, um 45 milljarða króna, til "breiðs hóps alþjóðalegra fjárfesta". Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að umframeftirspurn í útboðinu hafi verið rúmlega tvöföld, en alls bárust tilboð frá um 100 fjárfestum fyrir um 675 milljónir evra.
Skuldabréfin eru til þriggja ára og bera fasta 3,125 prósent vexti, og voru seld á kjörum sem jafngilda 3,10 prósent álagi yfir millibankavexti. Til stendur að nota hluta lánsins til að greiða niður önnur og óhagstæðari lán og lækka þannig fjármögnunarkostnað bankans. Auk þess munu fyrirtæki sem eru í viðskiptum við Arion banka njóta góðs af auknu aðgengi að erlendu lánsfé, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Þetta er fyrsta útgáfa íslensks banka í evrum sem er seld til svona fjárfestahóps frá hruni.
Arion Banki samdi á síðasta ári við alþjóðlegu bankanna Citi, Deutsche Bank og Nomura um skipulagningu funda með evrópskum fjárfestum og er útgáfan afleiðing af þeirri vinnu.
Gáfu út en keyp til baka
Þetta er ekki fyrsta útgáfa Arion banka eftir bankahrun. Árið 2013 gaf bankinn út skuldabréf í norskum krónum, fyrir alls 500 milljónir norskra króna, og var þar með fyrsti íslenski bankinn til að sækja sér erlenda lánsfjármögnun frá árinu 2007. Bankinn tilkynnti það í janúar síðastliðnum að hann hefði keypt til baka hluta þeirra skuldabréfa, fyrir alls 59 milljónir norskra króna. Þau skuldabréf voru keypt á verðinu 102,5 sem samsvarar 2,79 prósent álagi yfir NIBOR.