Arion banki hyggst bjóða þeim viðskiptavinum sínum sem festa kaup á sinni fyrstu íbúð hærra lánshlutfall en öðrum viðskiptavinum, og fellir einnig niður lántökugjald. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum. Arion banki fetar þannig í fótspor hinna bankanna.
Almennt veitir Arion banki lán fyrir 80 prósentum af markaðsvirði fasteigna. Þannig er það einnig í Íslandsbanka, en hjá Landsbankanum er hlutfallið allt að 85 prósent á öllum lánum.
Mismunandi kvaðir eru á lánunum eftir bönkum. Nú býður Arion banki 85 prósenta lán, svo lengi sem upphæð lánsins er undir 30 milljónum króna og að minnsta kosti fjórðungur lánsins þarf að vera óverðtryggður. Íslandsbanki lánar að hámarki 1,5 milljón króna til viðbótar við 80 prósentin, en lánar þó aldrei meira en 90 prósent af kaupverði. Viðbótarlánið er óverðtryggt og að hámarki til tíu ára.
Þá hefur Arion banki fellt niður lántökugjald, sem nemur einu prósenti af lánsfjárhæðinni, við fyrstu kaup. Landsbankinn gerir slíkt hið sama, en hjá Íslandsbanka er veittur 50 prósenta afsláttur af lántökugjaldinu.
Arion stærstur en Landsbankinn bætti mestu við sig
Í fréttaskýringu um íbúðalánamarkaðinn, sem birtist í Kjarnanum nýverið, kemur fram að miðað við ársreikninga Arion banka jukust útlán um 13,6 milljarða á síðasta ári. Bankinn er langstærstur viðskiptabankanna, en heildaríbúðalán til einstaklinga námu 271,6 milljörðum króna um síðustu áramót. Sú stærð ræðst meðal annars af því að Kaupþing, sem Arion banki byggir á, var stórtækari en aðrir viðskiptabankar fyrir hrun að ná til sín viðskiptum íbúðarkaupenda. Auk þess yfirtók bankinn íbúðalán á fimmta þúsund einstaklinga þegar bankinn tók yfir 56 milljarða króna útlánasafn frá slitastjórn Dróma í lok árs 2013. Um var að ræða lán sem áður tilheyrðu Spron, Frjálsa fjárfestingarbankanum og eignasafni Seðlabanka Íslands.
Landsbankinn hefur hins vegar aukið útlán mikið undanfarið, og lagt mikið í auglýsingar sem beinast að fyrstu kaupendum. Íbúðalán jukust um 39 milljarða hjá bankanum í fyrra, og nema um 164,5 milljörðum króna. Hann á ekki langt í land með að ná Íslandsbanka. Íslandsbanki bætti við sig um ellefu milljörðum króna af íbúðalánum í fyrra og heildarumfang íbúðalána til einstaklinga námu 187 milljörðum króna í fyrra.