Arion banki hefur lækkað vexti á íbúðalánum, í kjölfar þess að Lífeyrissjóður verslunarmanna ákvað að lækka vexti hjá sér og hækka lánshlutfallið.
Arion banki lækkaði í gær vextina á verðtryggðum íbúðalánum með breytilegum vöxtum og föstum vöxtum til fimm ára, og breytingarnar taka gildi 25. október. Breytilegu vextirnir verða 3,65 prósent en voru 3,85. Föstu vextirnir fara úr 3,90 prósent í 3,80 prósent.
Til samanburðar býður lífeyrissjóðurinn 3,35 prósenta breytilega vexti og 3,6 prósent fasta vexti.
Þá hefur Arion banki lækkað fasta vexti á óverðtryggðum lánum til þriggja og fimm ára, vextir til þriggja ára fara úr 7,40 prósentum í 7,15 og til fimm ára úr 7,50 prósentum í 7,05. Hins vegar hækka óverðtryggðir breytilegir vextir úr 6,60 í 7,05 prósent.
Hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna er boðið upp á óverðtryggð lán með föstum vöxtum til þriggja ára, og vextirnir eru nú 6,97 prósent.
Lífeyrissjóður verslunarmanna tilkynnti um það í síðustu viku að vextir hefðu verið lækkaðir, lántökugjald lækkað í 0,75 prósent og að lánshlutfallið hefði verið hækkað í 75 prósent. Þetta eru einhver mestu tíðindi á húsnæðismarkaði í langan tíma. Lánshlutfallið hjá bönkunum er enda 70 prósent, en þeir bjóða svo dýrari viðbótarlán, og vextirnir sem lífeyrissjóðurinn býður eru betri en hjá bönkunum.
Kjarninn fjallaði ítarlega um ný lánakjör Lífeyrissjóðs verslunarmanna í fréttaskýringu í lok síðustu viku. Þar var meðal annars leitað viðbragða hjá bönkunum og Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, sagði þá að ákvörðun Lífeyrissjóðs verslunarmanna gæfi tilefni til að skoða það gaumgæfilega að lækka vexti.