Ármann Þorvaldsson, fyrrum framkvæmdastjóri Kaupþings Singer & Friedlander í Bretlandi, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Virðingu. MBA Capital, félag í eigu Ármanns og meðfjárfesta hans, á 4,67 prósent í Virðingu. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að Ármann muni í upphafi einkum einbeita sér að "uppbyggingu og öflun verkefna á sviði fyrirtækjaráðgjafar[...] Hann mun jafnframt koma að enn frekari uppbyggingu félagsins og tekjuöflun á öllum sviðum."
Ármann var framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings frá árinu 1997 til ársins 2005 og framkvæmdastjóri Kaupþings Singer & Friedlander í Bretlandi frá 2005 til ársins 2008. Hann hefur á undanförnum árum starfað sem framkvæmdastjóri hjá fasteignalánafélaginu Ortus Secured Finance í London, en verður nú stjórnarformaður þess félags.
Margit Robertet.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að Margit Robertet hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri framtakssjóða Virðingar. Þar eru reknir tveir framtakssjóðir (e. Private equity), Auður I og Edda. Auður I á eignarhluti í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni, Já.is, 365, Íslenska gámafélaginu, Yggdrasil og Gagnavörslunni. Edda hefur fjárfest í þremur félögum; Securitas, Domino´s pizza og Íslandshótelum.
Margit hefur starfað hjá Virðingu og áður Auði Capital frá árinu 2007. Hjá Auði Capital starfaði hún sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar og hefur frá byrjun árs 2014 verið starfandi á framtakssjóðasviði. Á árunum 2005 til 2007 var hún framkvæmdastjóri lánasviðs Straums fjárfestingabanka. Á árunum 1993 til ársins 2005 starfaði hún hjá Credit Suisse First Boston í París og hjá Barclays í London. Á þeim tíma var hún bæði starfandi á sviði fyrirtækjaráðgjafar sem og markaðsviðskipta.
Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, segir að fyrirtækið stefni alltaf að því að vera með hæfasta starfsfólkið á fjármálamarkaði í sínum röðum og að Ármann og Margit fylli þann flokk.„Það eru spennandi tímar framundan á þessum kröfuharða markaði og ráðning þessara tveggja afar hæfu einstaklinga er þáttur í þeirri uppbyggingu sem framundan er hjá Virðingu.“