Líflegar umræður hafa skapast inn á Facebook-síðu Félags Maraþonhlaupara um umdeildan lokasprett Arnars Péturssonar, Íslandsmeistara karla í maraþoni, í Víðavangshlaupi ÍR sem haldið var venju samkvæmt á sumardaginn fyrsta, þann 23. apríl síðastliðinn. Arnar var krýndur Íslandsmeistari karla í 5 kílómetra götuhlaupi við komuna í endamarkið.
Á myndbandi sem birtist á RÚV má sjá hvernig Arnar sker síðustu beygju hlaupabrautarinnar, fer inn fyrir staur og hleypur yfir vegkant, og nær þar með forskoti á keppinaut sinn, hlauparann Ingvar Hjartarson, en hlaupararnir voru nær samhliða fyrir atvikið. Sjá umrætt myndband hér að neðan.
https://vimeo.com/126132945
Hlaupstjóri Víðavangshlaupsins hefur óskað eftir áliti Frjálsíþróttasambands Íslands, um hvort reglur um götuhlaup hafi verið brotnar í umrætt sinn, eftir að ábendingar bárust frá fólki um atikið. Kjarninn greindi frá þessu í dag.
Heitar umræður innan hlaupasamfélagsins
Ofangreint myndband var birt inn á Facebook-síðu Félags maraþonhlaupara, sem hefur tæplega 1.700 meðlimi, og spunust þar líflegar umræður í kjölfarið, þar sem athæfi Íslandsmeistara karla í maraþoni er ýmist fordæmt sem og framkvæmd hlaupsins, eða sigurvegaranum komið til varnar.
Daníel Smári Guðmundsson, þekktur langhlaupari og þjálfari, leggur orð í belg: „Í öllum götuhlaupum eru staðir þar sem er hægt að skera af hlaupaleiðinni, og ég held að flestir skynsamir hlauparar hafi skorið af hlaupaleið með því að hlaupa upp á gangstéttar. Ég veit ekki til þess að það sé ólöglegt, nema merkingar banni slíkt. Óheppilegt að það skildi vera hægt að skera þetta horn rétt við markið. Mistök hjá skipuleggjendum hlaupsins að loka ekki horninu með grindum. Ég bið fólk í tjáningarþörf hér inni á síðunni að slaka á og vera ekki að búa til eitthvað drama og neikvæða umræðu gagnvart frábæru ÍR hlaupi og flottum sigurvegara hlaupsins.“
Gísli Ásgeirsson, sem er stofnfélagi og fyrrum stjórnarmaður í Félagi maraþonhlaupara til fjölda ára, skrifar: „Í hita leiksins getur ýmislegt gerst. Í þessu tilviki hefðu brautarverðir átt að tilkynna markdómara um styttingu á leið á endaspretti og hann metur hvort viðkomandi hafi grætt á því eða brotið reglur. Þjálfari getur einnig lagt fram kvörtun sem verður að taka efnislega fyrir. Keppendur, sem þekkjast flestir vel, eiga ekki að þurfa að standa í svona.
Höfum í huga að reglur um götuhlaup eru ekki 100% skýrar en þar sem brautin er kvörðuð og mæld samkvæmt ströngum reglum, er gert ráð fyrir að hlaupið sé á götunni og mælingin miðast við brún gangstéttar
AP (Arnar Pétursson) hefði getað gert sér grein fyrir mistökum sínum og viðurkennt þau, afþakkað sekúnduna sem hann græddi á þessu, tekið í hönd Ingvars og óskað honum til hamingju með sigurinn.“
Önnur vafasöm uppákoma
Þá fordæmir langhlauparinn Jón Jóhannesson athæfið: „Þetta má ekki, hann á að fylgja götunni. Ég var þarna á horninu í góðra vina hóp og fylgdist með og jú menn göptu og höfðu orð á því þarna hefði hann gróflega stytt sér leið. Og það sem meira er hann notaði beygjuna til að ná forskoti á keppinaut sinn. Leiðinlegt fyrir þennan annars ágæta hlaupara að lenda aftur í svona vafasamri uppákomu.“
Fyrri uppákoman sem Jón vísar til er kæra sem lögð var fram á hendur Arnars Péturssonar, eftir að hann var krýndur Íslandsmeistari karla í maraþoni eftir sigur í Reykjavíkurmaraþoninu, þar sem hann var sakaður um að hafa brotið reglur með því að njóta liðsinnis tveggja hjólreiðamanna í hlaupinu.
Yfirdómnefnd maraþonsins viðurkenndi í úrskurði sínum að reglur hlaupsins hafi verið brotnar í umrætt sinn, en taldi ósannað að Arnar hafi notið aðstoðar hjólreiðamannanna og vísaði kærunni frá. Dómstóll Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) staðfesti síðar úrskurð yfirdómnefndar og áfrýjunardómstóll sambandsins vísaði málinu frá vegna annmarka á kæruferli málsins.