Arndís Ósk Ólafsdóttir Arnalds hefur verið ráðin yfirmaður verkefnastofu Borgarlínu, sem heyrir undir Vegagerðina. Frá þessu er greint á vef Borgarlínu, en þar segir að Arndís muni hafa yfirumsjón með öllum verkefnum Borgarlínu hjá Vegagerðinni.
Arndís hefur undanfarin fjórtán ár starfað hjá OR og Veitum, nú síðast sem forstöðumaður vatns- og fráveitu, auk þess að sitja í framkvæmdastjórn Veitna.
Arndís er í tilkynningu Borgarlínu sögð hafa mikla reynslu af verkefnastjórnsýslu, áætlanagerð og undirbúningi umfangsmikilla opinberra framkvæmda og einnig „mikla og farsæla reynslu af því að leiða opinber innviðaverka verk með ólíkum hagaðilum.“
Hrafnkell Á. Proppé gegnir starfinu áfram til áramóta, en hann greindi frá því í byrjun september að hann hygðist kveðja borgarlínuverkefnið eftir að hafa fylgt því allt frá árinu 2013, fyrst sem starfsmaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og síðar sem yfirmaður á verkefnastofu Borgarlínu hjá Vegagerðinni. Hann hefur ráðið sig til starfa hjá Skipulagsstofnun.
Í tilkynningu Borgarlínu segir að á verkefnastofunni starfi sérfræðingar á sviði samgöngumála og gatna- og stígahönnunar og að hópurinn samanstandi af starfsmönnum Vegagerðarinnar, sveitarfélaga og innlendum og erlendum stoðráðgjöfum Borgarlínu.