Árni Stefánsson hefur sagt upp starfi sínu sem forstjóri Vífilfells. Við starfi hans tekur Carlos Cruz, sem hefur verið framkvæmdastjóri sölumála hjá Refrige SA í Portúgal frá árinu 2009. Árni, sem hefur starfað hjá Vífilfell frá árinu 1998 og verið forstjóri þess síðasta áratuginn, mun í framhaldi af þessum breytingum setjast í stjórn fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vifilfelli.
Vífilfell er einn stærsti drykkjarframleiðandi og matvæladreifingaraðili landsins. Frægasta vörumerkið sem fyrirtækið framleiðir fyrir íslenskan markað er Coca Cola.
Árni Stefánsson, fráfarandi forstjóri Vífilfells.
Spænski drykkjarvöruframleiðandinn Cobega SA keypti Vífilfell í byrjun árs 2011. Áður hafði fyrirtækið verið að mestu í eigu Þorsteins M. Jónssonar, sem er oft kenndur við kók.
Í tilkynningunni þakkar Mario Rotllant Sola, stjórnarformaður Vífilfells, Árna fyrir framlag hans. "Við erum þakklát fyrir það góða starf sem Árni hefur innt af hendi og afar ánægð að hann muni starfa með okkur áfram að þróunarverkefnum sem stjórnarmaður í Vífilfelli“. Sem stjórnarmaður mun Árni vinna í málum tengdum framtíðarþróun fyrirtækisins ásamt því að sinna öðrum verkefnum fyrir eigendur fyrirtækisins sem ekki tengjast Vífilfelli.
Carlos Cruz, sem tekur við starfinu, hefur verið framkvæmdastjóri sölumála hjá Refrige SA í Portúgal frá árinu 2009. Refrige SA er átöppunarfyrirtæki fyrir The Coca-Cola Company og hluti af Coca-Cola Iberian Partners sem er í eigu Cobega SA á Spáni.