Fjárfestarnir Árni Hauksson, Hallbjörn Karlsson og Sigurbjörn Þorkelsson voru meðal þeirra sem keyptu fimm prósenta hlut í Símanum í ágúst síðastliðnum, þegar nokkrir stjórnendur og fjárfestar eignuðust í fyrirtækinu fyrir hlutafjárútboð sem lauk í gær. Þeir vilja ekki upplýsa um hversu stóran hlut þeir eiga í félaginu L1088 ehf., en það félag á aftur fimm prósenta hlut í Símanum eftir viðskiptin í ágúst.
Hópurinn sem keypti fimm prósenta hlut í ágúst, leiddur af Orra Haukssyni forstjóra félagsins, keypti á genginu 2,5 krónur á hlut. Í almennu hlutafjárútboði sem lauk í gær greiddu flestir 3,4 krónur á hlut, eða 36 prósentum meira en í viðskiptunum í ágúst. Það þýðir að hlutur sem var keyptur á 100 milljónir króna er nú orðin 136 milljóna króna virði. Þó er vert að taka fram að hópurinn skuldbatt sig til að selja ekki hlutinn strax.
Kjarninn hefur áður greint frá að í fjárfestahópi Orra Haukssonar hafi verið framkvæmdastjórar Símans, fimm erlendir einstaklingar auk Sigurbjörns Þorkelssonar, sem starfaði lengi sem yfirmaður hjá Lehman Brothers og var einn eigandi Haga og stofnaði verðbréfamiðlunina Fossa markaði fyrr á þessu ári, Stefán Ákason, fyrrum forstöðumaður skuldabréfamiðlunar Kaupþings, og Ómar Svavarsson, fyrrum forstjóri Vodafone á Íslandi.
Árni og Hallbjörn keyptu kjölfestuhlut í Högum fyrir skráningu félagsins á hlutabréfamarkað í lok árs 2011. Þá keyptu þeir á genginu tíu krónur á hlut, undir útboðsgengi félagsins sem hækkaði síðan enn meira í Kauphöllinni og margfaldaði virði eignar Árna og Hallbjörns.
Mikil umframeftirspurn var í útboði á hlutabréfum Arion banka í Símanum í gær, en til sölu var 21 prósent hlutafjár. Áætlað er að viðskipti hefjist með bréf félagsins í Kauphöll fimmtudaginn 15. október.