Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, ætlar ekki að segja af sér formennsku í flokknum þrátt fyrir að fylgi hans mælist nú það lægsta síðan árið 1998, árið áður en flokkurinn bauð fyrst fram. Hann segir almenna kreppu vera í ganga hjá gömlum stjórnmálaflokkum og því sé Samfylkingin ekki í sérstakri stöðu hvað það varðar. Hann vill leggja sitt "að mörkum til þess að breyta Samfylkingunni og gera hana færa til þess að takast á við þessar nýju aðstæður.". Þetta kom fram í viðtali við Árna Pál á Morgunvaktinni á Rás 2 í morgun.
Mistök að gefa þjóðinni ekki tækifæri til að tjá sig um Icesave
Árni Páll boðar fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur og aukið vald til þjóðarinnar í mikilvægum málum. "Þegar ríkisstjórnin sveik annan ganginn sveik loforðið um þjóðaratkvæðagreiðslu að þá hafi fólk fyllst reiði og vonleysi og sú reiði bitnar á okkur líka. Á síðasta kjörtímabili vorum við ekkert á því að gefa þjóðinni tækifæri til að tjá sig um Icesave. Það voru mistök, alvarleg mistök og ég held einfaldlega að þjóðin sé komin að þeirri niðurstöðu, og ég deili þeirri skoðun með þjóðinni, að það sé í lagi að fela henni flókin málefni til úrlausnar, jafnvel viðkvæma milliríkjasamninga eins og í tilfelli Icesave."
Í sögulegum lægðum
Í nýjustu könnun Gallup, sem birt var í vikunni, mælist Samfylkingin með einungis níu prósent fylgi, sem er lægsta fylgi flokksins samkvæmt mælingum síðan í maí 1998, ári áður en flokkurinn bauð fyrst fram til Alþingis.
Þessi dýfa er ekki nýtilkomin. Fylgi Samfylkingarinnar hefur hríðfallið undanfarin misseri og flokkurinn virðist vera í miklum vandræðum við að höfða til kjósenda. Flokkurinn fékk 12,9 prósent í síðustu kosningum, sem þótti afleit niðurstaða, og tapaði meira fylgi á milli kosninga en nokkur flokkur í sögu landsins hefur gert. Fyrir tæpu ári síðan í ágúst 2014, virtist Samfylkingin vera að ná sér á strik og fylgið mældist í kringum 20,3 prósent. Síðan þá hefur það verið á hraðri niðurleið.