Það er áfellisdómur yfir Samfylkingunni að hún skuli ekki hafa fengið til sín fylgi Bjartrar framtíðar þegar það fór að hníga. Í staðinn fyrir að finna skoðunum sínum farveg innan Samfylkingarinnar hafi þetta fólk horft til Pírata. Þetta sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Árni Páll sagði stöðu flokksins vera áfellisdóm yfir honum sjálfum og flokknum. Þróunin hefði byrjað með stofnun Bjartrar framtíðar og haldið áfram. „Ef þú horfir á stöðuna eins og hún er í dag og horfir á hana frá 2012 þá er það í mínum huga áfellisdómur yfir samfylkingunni að hún skuli ekki hafa orðið vettvangur fólks sem hefur viljað fara í málefnalega nýsköpun á miðju íslenskra stjórnmála. Fyrst í Bjartri framtíð og síðan í Pírötum.“ Hann spurði svo hvað þetta fólk væri að gera og hvort það vildi gera hluti sem væru í andstöðu við það sem Samfylkingin vildi.
„Ó nei, þetta fólk hefur verið að tala fyrir opnu samfélagi, verið að tala fyrir áframhaldi aðildarumsóknar að Evrópusambandinu, beinu lýðræði, stjórnkerfisumbótum, talað fyrir réttindum minnihlutahópa. Allt eru þetta málefni sem Samfylkingin hefur barist fyrir á hæl og hnakka frá því að hún var stofnuð. Og það er áfellisdómur yfir Samfylkingunni ef fólk telur sig þurfa að vinna þessum málum fylgis einhvers staðar annars staðar en innan Samfylkingarinnar.“
Hann sagði flokkinn vera álitinn einn af fjórflokkunum, en hann væri það ekki, heldur hefði hann verið stofnaður til höfuðs fjórflokknum. Ekki hefði verið nóg gert til rjúfa þá ímynd í huga fólks að Samfylkingin væri kerfisflokkur. „Orðræða okkar er kannski allt of mikið bundin því að vera eins og aðrir flokkar, að þrasa um það sem við erum að gera frá degi til dags og verja verk okkar í fortíð og svo framvegis.“
Þá sagði hann Samfylkinguna verða að bregðast við ástandinu. „Samfylkingin verður að bregðast við því með því að verða sú fjöldahreyfing sem hún var stofnuð til að vera. Hún verður að hætta að tala eins og gamaldagsflokkur, hún verður að hætta að vinna eins og gamaldagsflokkur og hún verður að leita sér fyrirmynda í lausbeisluðum fjöldahreyfingum út um allan heim.“