Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að átökin á síðasta landfundi flokksins hafi verið honum dýrkeypt. Skýringar á miklu fylgistapi Samfylkingarinnar undanfarin misseri sé þó aðallega að finna í uppgangi Pírata. Hann segir þrýsting innan flokksins um að blása til nýs landsfundar, en sá síðast fór fram í mars á þessu ári, og segist tilbúinn að leggja störf sín í dóm flokkssystkina. Þetta kom fram í viðtali Hallgríms Thorsteinssonar við Árna Pál í Helgarútgáfunni á Rás 1 í morgun.
Síðasti landsfundur Samfylkingarinnar fór fram í mars síðastliðnum. Þar bauð Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sig fram til formanns gegn sitjandi formanni, Árna Páli Árnasyni. Þar sem framboðið barst skömmu fyrir landsfund gátu einungis landsfulltrúar kosið í formannskosningunum í stað þess að allsherjaratkvæðagreiðsla færi fram sem allir flokksmenn gætu tekið þátt í. Niðurstaðan varð sú að Árni Páll sigraði með einu atkvæði, hlaut 241 atkvæði en Sigríður Ingibjörg 240.
Árni Páll tók við af Jóhönnu Sigurðardóttur sem formaður Samfylkingarinnar árið 2013. Hann var kjörinn í allsherjarkosningu og hlaut afgerandi kosningu í baráttunni um formannsstólinn við Guðbjart Hannesson. Samfylkingin beið hins vegar afhroð í síðustu Alþingiskosningum, undir stjórn Árna Páls, þegar flokkurinn hlaut 12,9 prósent atkvæða og tapaði ellefu þingmönnum. Aldrei nokkru sinni í sögu íslenskra stjórnmála hefur einn flokkur tapað jafn miklu fylgi á milli kosninga og Samfylkingin gerði á milli áranna 2009 og 2013.
Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 11,4 prósent, eða minna en í síðustu kosningum. Og það hefur mælst stöðugt mjög lágt í öllum könnunum sem gerðar hafa verið undanfarna mánuði.
Í Helgarútgáfunni sagði Árni Páll að í fyrrahaust hafi flokkurinn verið að mælast með um 20 prósent fylgi. Frá þeim tíma hafi orðið gríðarleg fylgissveifla til Píratar. "Hún hittir okkur nú seinast fyrir af öllum flokkunum, en hittir okkur á endanum. Síðan er ekkert hægt að líta framhjá því að landsfundurinn var ekki til þess að styrkja stuðning okkar meðal þjóðarinnar. Við súnkuðum í fylgi í könnunum eftir hann. Viðfangsefni okkar hlýtur að vera að draga lærdóm af þessari stöðu."
Hann sagðist verða var við þrýsting innan Samfylkingarinnar um að halda nýjan landsfund og að hann væri algjörlega tilbúinn til þess að leggja sín störf í dóm flokksmanna. "Þetta snýst ekki um annað en það að á meðan ég tel mig hafa hugmyndir og sýn um það hvert eigi að fara með flokkinn, sem flokksmenn deila, þá sit ég sem formaður og ef flokksmenn hætta að styðja mína sýn og vilja einhverja aðra, þá væntanlega verð ég ekki lengur formaður. Það er nú eðli lýðræðisins.“