Samfylkingin vill að ríkið stuðli að auknu framboði á markaði leiguhúsnæðis með því að veita skattaafslátt til einstaklinga vegna útleigu einnar íbúðar til að lágmarki 12 mánaða. Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. „Slík aðgerð gæti aukið framboð leiguhúsnæðis gríðarlega. Um 4.000 íbúðir eru í leigu til ferðamanna í gegnum vefsíðuna Airbnb. Ef einungis hluti þeirra færi í langtímaleigu yrði stórum áfanga náð. Aðrir sem ekki eru að leigja út í dag, gætu séð sér leik á borði, ef þessi lagabreyting yrði að veruleika,“ segir Árni Páll.
Í greininni fjallar Árni Páll um ástandið á leigumarkaði í dag og segir það alvarlegt. Enginn fái íbúð á boðlegum kjörum og litlar íbúðir á besta stað séu illfáanlegar og dýrar. Mikilvægast sé að fjölga íbúðum en auk þess leggur Árni Páll til að leigusalar fái skattaafslátt ef þeir leigja íbúðina til langs tíma.
„Ásókn ferðamanna í skammtímaleigu veldur skorti á íbúðum á almennum leigumarkaði. Fyrir því finna námsmenn og aðrir sem þurfa á leiguhúsnæði að halda. Tekjur af leigu til ferðamanna eru enda miklu meiri en af leigu á almennum markaði.
En á sama tíma er líka fólk sem á íbúðir eða laus herbergi sem það er ekki tilbúið að leigja til lengri tíma, vegna þess að lítið fæst upp úr því.“
Stofna samtök um skammtímaleigu á heimilum
Eins og Kjarninn hefur fjallað um þá er víðar deilt um áhrif skammtímahúsaleigu til ferðamanna á almennt leiguverð. Í San Francisco vilja yfirvöld setja þak á fjölda gistinátta sem leigja má í gegnum Airbnb og aðrar leigusíður. Sambærilegar hugmyndir hafa verið ræddar á Alþingi.
Margir eiga hagsmuna að gæta. Nærri tvö þúsund íbúðir í Reykjavík eru til leigu í gegnum Airbnb og um fjögur þúsund á landinu öllu. Leigusalar eru því margir.
Í gær var fjölmiðlum send tilkynning um stofnun samtaka um skammtímaleigu á heimilum. Enginn er skrifaður fyrir tilkynningunni en í henni segir að stofnfundur verði haldinn í höfuðstöðvum Startup Reykjavík sunnudaginn 30. ágúst. „Markmið samtakanna er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum þeira sem bjóða upp á skammtímaleigu á heimilum, íbúðum og/eða frístundarheimilum á Íslandi,“ segir í tilkynningunni. Samtökin ætla að ná settum markmiðum meðal annars því að „stuðla að því að skammtímaleiga verði viðurkenndur valmöguleiki fyrir ferðamenn á Íslandi“ og „beita sér fyrir því að löggjöf um skammtímagistingu á heimilum, íbúðum og eða frístundarheimilum á Íslandi geri einstaklingum kleift að bjóða upp á þessa tegund með einföldum hætti“ auk þess sem samtökin hyggjast „vinna með yfirvöldum til að auka gagnsæi á markaði“.