Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir það lítilmannlegt af Bjarna Benediktssyni að hengja skattrannsóknarstjóra vegna vandræðagangs við kaup á gögnum úr skattaskjólum. Árni Páll ræddi málið í kvöldfréttum RÚV. „Það er öllum orðið ljóst í landinu að hann er ekki að ganga fram af fullri ákveðni í þessu máli,“ sagði Árni.
Í fréttum í gær gagnrýndi Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra Bryndísi Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra harðlega vegna málsins. Hann sagði málið hafa þvælst alltof lengi hjá embættinu og að ekki hafi allt staðist sem hafi komið frá embættinu. Þá sagði hann að skattrannsóknarstjóri þyrfti að rísa undir ábyrgð í málinu.
Kjarninn hefur reynt að ná í Bryndísi Kristjánsdóttur vegna málsins í dag án árangurs.
Árni Páll segir vandræðaganginn í málinu fyrst og fremst verið hjá Bjarna. „Hann hefur verið að segja að það kunni að þurfa að breyta löggjöf til þess að hægt sé að nýta gögn af þessum toga. En það hefur ekkert frumvarp komið inn í þingið þar um. Við erum til í að hleypa því í gegnum þingið á einum degi ef hann kemur með það,“ sagði Árni Páll í kvöldfréttum RÚV. Það sé einnig Bjarna að tryggja fullnægjandi fjárveitingu fyrir málinu.
Bæði bandarísk og þýsk stjórnvöld hafa farið þá leið að kaupa gögn um skattaundanskot þegna sinna frá aðilum sem hafa boðið þau til sölu. Þýsk stjórnvöld greiddu til að mynda um 20 milljónir evra fyrir slík gögn á árunum 2006 til 2012. Samkvæmt frétt Der Spiegel um kaupin var ávinningur þýska ríkisins vegna kaupanna margfaldur, eða um tvö þúsund milljónir evra.
Íslendingar eiga 1.500 milljarða króna erlendis
Á góðæristímanum var lenska að geyma eignarhald fyrirtækja, og peninga, á framandi slóðum. Útibú eða dótturfélög íslensku bankanna settu upp allskyns félög fyrir viðskiptavini sína í Lúxemborg, Hollandi, á Kýpur, Mön og eyjunum Jersey og Guernsey þar sem bankaleynd var, og er, rík.
Auk þess var mikið um það að stofnuð væru félög á Bresku Jómfrúareyjunum fyrir viðskiptavini þeirra, nánar tiltekið á Tortóla-eyju. Félögin skiptu hundruðum og langflest þeirra voru stofnuð í Kaupþingi í Lúxemborg, sem hélt sérstakar kynningar fyrir viðskiptavini sína til að sýna fram á hagræðið sem fékkst af því að geyma t.d. ávinning af hlutabréfasölu í aflandsfélögunum og greiða sér síðan arð úr þeim. Þannig komust þeir sem áttu þessi félög meðal annars hjá því að greiða skatta á Íslandi.
Í lok ársins 2013, rúmum fimm árum eftir bankahrun og setningu gjaldeyrishafta, áttu Íslendingar enn tæpa 1.500 milljarða króna í erlendri fjármunaeign. Um er að ræða annað hvort eigið fé eða lánveitingar á milli aðila í sömu eigu. Á meðal þess sem kemur fram í tölunum er að Íslenskir aðilar eigi 28,5 milljarða króna eignir á Tortóla-eyju. Eignir Íslendinga þar hafa snaraukist að raunvirði síðan fyrir hrun, en í árslok 2007 áttu þeir 8,4 milljarða króna á eyjunum. Gengisfall krónunnar skýrir aukninguna að einhverju leyti.
Mest af erlendum auði Íslendinga er í Evrópu, rúmir 1.000 milljarðar króna. Tæplega 400 milljarðar króna eru í Ameríkuálfunum og um 30 milljarðar króna annarsstaðar í heiminum.
Lestu ítarlega fréttaskýringu Kjarnans um skattaskjólsmálið hér.