Árni Sigfússon, fyrrum bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segist bera ábyrgð á þeirri stöðu sem er upp komin í fjármálum Reykjanesbæjar. Þetta kemur fram á vef RÚV. Þar segir Árni:„Ég held að ég beri ábyrgð á því að við erum búin að byggja gott og öflugt samfélag. Við erum búin að vera að byggja hér atvinnulífið, við erum búin að vera að standa okkur vel í menntun og ég skal bera ábyrgð á því. Jafnframt hefur ekki gengið að ná upp ýmsum verkefnum, sérstaklega í atvinnumálum. Það er mikill kostnaður og það er það sem við erum að glíma við. Svo ég skal alveg bera ábyrgð á þessu öllu.“
Fyrr í dag var greint frá því að Reykjanesbær eigi í viðræðum við kröfuhafa um endurskipulagningu skulda sinna, en ef þær viðræður skila ekki árangri getur komið til greiðslufalls hjá bænum. Í tilkynningu vegna þessa segir: „Eins og fram hefur komið í tilkynningum Reykjanesbæjar er fjárhagsstaða bæjarfélagsins alvarleg. Bæjaryfirvöld eiga í
Árni Sigfússon.
viðræðum við kröfuhafa um endurskipulagningu skuldbindinga bæjarfélagsins. Stefnt er að því að niðurstaða þeirra viðræðna liggi fyrir á næstu vikum. Ef viðræðurnar skila ekki árangri getur komið til greiðslufalls á skuldbindingum bæjarfélagsins í framtíðinni."
Árni segir að það sé nauðsynlegt að ná samningum. „Það getur komið til greiðslufalls. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem við sendum svona tilkynningu til Kauphallar og auðvitað ef tekst ekki að semja um lán getur komið til greiðslufalls en við vonum að það verði ekki. Þetta eru aðilar í gegnum Glitni, þetta eru skuldbindingar sem tengjast okkar fasteignafélagi sem þarf þá að endursemja um og átti að vera búið að gera um áramót eins og ég segi. Það voru mjög hagstæðir samningar til áramóta en svo eru þeir að breytast og það er gríðarlega mikilvægt að ná þessu niður".