Árni Sigfússon, stjórnarformaður Orkusjóðs, vék ekki sæti þegar sjóðurinn ákvað að veita styrki til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, en bróðir Árna er forstjóri hennar. Styrkirnir voru upp á tæpar fimm milljónir króna. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þar er rætt við Valdimar Össurarson, framkvæmdastjóra Valorku, sem var synjað um styrk úr Orkusjóði. Hann fór í kjölfarið fram á lista yfir styrkveitingar og þar kom umrædd styrkveiting í ljós. Orkusjóður er í eigu ríkisins og sér ráðgjafarnefnd Orkusjóðs um að skila tillögum til iðnaðarráðherra um einstakar greiðslur úr sjóðnum.
Samkvæmt listanum fékk Nýsköpunarmiðstöð Íslands tvær styrkveitingar upp á samanlagt tæpar fimm milljónir króna. Valdimar telur að ólöglega hafi verið staðið að styrkveitingunum vegna þess að stjórnarformaður Orkusjóðsins, Árni Sigfússon, og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, Þorsteinn Ingi Sigfússon, séu bræður. Hann telur að þetta stangist á við stjórnsýslulög.
Jakob Björnsson, framkvæmdastjóri Orkusjóðs, staðfestir við Fréttablaðið að Árni hafi ekki vikið sæti þegar styrkveitingin var samþykkt í stjórn sjóðsins.