Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki hækkað meira á 12 mánaða tímabili síðan árið 2006. Árshækkunin, samkvæmt nýbirtri vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir maímánuð, nemur nú 24 prósentum.
Vísitalan hækkar um 3 prósent á milli mánaða og hefur hækkað um 9,1 prósent á síðustu þremur mánuðum og 15,7 prósent á síðustu sex mánuðum, samkvæmt því sem fram kemur á vef Þjóðskrár.
Á síðustu 12 mánuðum hafa sérbýli hækkað meira en íbúðir í fjölbýli, en hækkun sérbýla nemur 25,5 prósentum og á meðan að eignir fjölbýli hafa hækkað um 23,7 prósent að meðaltali.
Hækkunartakturinn orðinn meiri en árin 2016-17
Sem áður segir þarf nú að fara aftur til ársins 2006 til þess að finna viðlíka hækkanir íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu á 12 mánaða tímabili, en þá var að ganga niður sú mikla bylgja verðhækkana á markaði sem átti sér stað á árunum 2005 og 2006.
Árshækkunin er nú orðin meiri en hún var á hæsta punkti verðhækkanabylgjunnar sem átti sér stað á árunum 2016 og 2017, en í maí 2017 hafði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 23,5 prósent á 12 mánaða tímabili.
Enn bjartsýn á að markaðurinn róist um mitt árið
Greining Íslandsbanka telur forsendur fyrir því að íbúðaverði haldi áfram að hækka á allra næstu mánuðum, samkvæmt því sem fram kemur í umfjöllun Bergþóru Baldursdóttur hagfræðings um þróun húsnæðisverðs, sem birtist á vef bankans í dag.
Í umfjölluninni segir að „vonandi“ verði framboð nýrra íbúða auk dvínandi eftirspurnar „nóg til að hægja á verðhækkunum síðar á þessu ári“. Greining Íslandsbanka spáði því í þjóðhagsspá sinni í maí að hægja myndi á hækkunartaktinum þegar liði á árið og að um mitt ár yrði komin ró á markaðinn.
„Við erum enn bjartsýn að það verði niðurstaðan,“ segir í greiningunni.
Þar er einnig fjallað um vænt áhrif aðgerða Seðlabanka Íslands á húsnæðismarkaðinn, en eins og greint var frá í síðustu viku hefur lánastofnunum verið bannað að lána fyrstu kaupendum meira en 85 prósent af kaupverði eigna og auk þess hefur verið hert að greiðslubyrðarhlutfalli, sem þýðir að erfiðara verður fyrir fólk að komast í gegnum greiðslumat.
„Þetta mun væntanlega hafa þau áhrif að eftirspurn dvíni en hve mikið er stóra spurningin,“ segir í greiningunni frá Íslandsbanka.