Átta manns sóttu um um embætti ráðuneytisstjóra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins sem auglýst var 3. febrúar, en umsóknarfrestur rann út í lok síðasta mánaðar. Á meðal þeirra sem sóttu um stöðuna er Ásdís Halla Bragadóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Garðabæ.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem fer með ráðuneytið í ríkisstjórn, setti hana sem ráðuneytisstjóra til þriggja mánaða nokkrum dögum áður en að staðan var auglýst laus til umsóknar. Áður hafði Ásdís Halla verið ráðinn verkefnastjóri við undirbúning ráðuneytisins, sem er nýtt, í byrjun desember í fyrra.
Aðrir umsækjendur eru Borghildur Einarsdóttir forstjóri, Elmar Hallgríms Hallgrímsson framkvæmdastjóri, Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri, Katrín Olga Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri, Ragnhildur Ágústsdóttir sölustjóri og Sigurður Erlingsson viðskiptafræðingur.
Skipað verður í starfið til fimm ára frá 1. maí næstkomandi. Þriggja manna nefnd hefur verið falið að meta hæfni umsækjenda og skila skýrslu til ráðherra. Í henni sitja Margrét Einarsdóttir, sem er formaður, Gunnar Björnsson og Heiðrún Jónsdóttir. Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, er í umboði ráðherra settur ráðuneytisstjóri til þess að annast skipunarferlið.