Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason, sem verið hefur aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs Arion banka frá árinu 2019, hefur verið ráðinn forstjóri SKEL fjárfestingafélags hf.
Frá þessu segir í tilkynningum frá SKEL og Arion banka í morgun, en í tilkynningu Arion kemur fram að Ásgeir muni láta af störfum hjá bankanum á næstu dögum.
Í tilkynningu frá SKEL til Kauphallar er einnig sagt frá því að Magnús Ingi Einarsson hafi verið ráðinn fjármálastjóri félagsins.
Þar er haft eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni stjórnarformanni SKEL að það sé mikill fengur í að fá þá Ásgeir og Magnús til liðs við félagið.
„Þessir tveir öflugu aðilar munu hrinda í framkvæmd áframhaldandi umbreytingu félagsins, þar sem lögð verður áhersla á fjárfestingar í fyrirtækjum og þróun fyrirtækja, sem hafa meðal annars að leiðarljósi að einfalda fólki og fyrirtækjum lífið,“ er haft eftir Jóni Ásgeiri.
Iða Brá verður aðstoðarbankastjóri
Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs, mun nú jafnframt gegna starfi aðstoðarbankastjóra hjá Arion. Iða Brá hefur starfað hjá Arion banka og forverum frá árinu 1999. Frá þeim tíma hefur hún gegnt ýmsum störfum innan bankans, en hún var framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs frá 2016 til 2017 þegar hún tók við starfi framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs.
Hún er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með MSc í fjármálum frá Erasmus Graduate School of Business í Hollandi. Iða Brá er einnig með próf í verðbréfaviðskiptum.
Hákon Hrafn Gröndal, lánastjóri á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs og hefur tekið sæti í framkvæmdastjórn bankans, samkvæmt tilkynningu Arion. Hákon er viðskiptafræðingur frá Griffith University, með MSc í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands og með próf í verðbréfaviðskiptum.
Framkvæmdastjóri markaða lætur einnig af störfum
Arion banki segir einnig frá því í dag að Margrét Sveinsdóttir, sem verið hefur framkvæmdastjóri eignastýringar og síðar markaða frá árinu 2009, muni láta af störfum á næstu vikum.
Jóhann Möller, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Stefnis undanfarin ár, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri markaða og mun taka sæti í framkvæmdastjórn Arion banka á næstu vikum.
Jóhann hefur verið framkvæmdastjóri Stefnis frá árinu 2020 og starfað á fjármálamarkaði í rúm 20 ár. Jóhann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með próf í verðbréfaviðskiptum.