Verðbréfafyrirtækið Virðing hefur ráðið Dr. Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, sem efnahagsráðgjafa. Ásgeir var aðalhagfræðingur Kaupþings árið 2004 og forstöðumaður greiningadeildar bankans á árunum 2004 til 2008. Hann gengdi sömu stöðu hjá Arion banka til ársins 2011. Ásgeir gekk síðan til liðs við verðbréfafyrirtækið GAMMA og starfaði sem efnahagsráðgjafi þess þar til í desember 2014.
Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar.
Í tilkynningu vegna ráðningar Ásgeir segir að ráðning efnahagsráðgjafa sé liður í að efla enn frekar starfsemi Virðingar. Aukin umsvif fyrirtækisins kalli á frekari sjálfstæða ráðgjöf og greiningar á sviði efnahagsmála sem nýtist bæði starfsmönnum og viðskiptavinum Virðingar.
Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, segir gríðarmikinn feng í Ásgeiri. „Fáir búa yfir jafn mikilli reynslu af greiningum á fjármálamarkaði og hann, enda hafa kraftar hans verið mjög eftirsóttir á sviði peningahagfræði, fasteignamarkaðar og almennrar þjóðhagfræði. Það styrkir jafnframt aðrar deildir Virðingar að hafa aðgang að manni með hans reynslu. Við höfum lagt áherslu á að laða til okkar hæft starfsfólk með mikla þekkingu enda er það forsenda þess að geta boðið viðskiptavinum Virðingar upp á bestu mögulegu þjónustu á sviði eignastýringar- og verðbréfaviðskipta.“