Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, sendi í morgun bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þar sem hún er hvött til að beita sér fyrir skattlagningu alþjóðlegra risafyrirtækja sem eru með starfsemi um allan heim en borga litla sem enga skatta.
Slík alþjóðleg skattlagning hefur verið til umræðu á vettvangi OECD og G20 ríkjanna og í bréfinu segir Drífa að verkalýðsfélög um allan heim sendi nú hvatningu á stjórnvöld í aðdraganda fundar G-20 ríkjanna sem fram fer í lok mánaðar. „Tillögur í þessa veru njóta víðtæks pólitísks stuðnings, líkt og kristallaðist á G-7 fjármálaráðherrafundinum í upphafi þessa mánaðar, en sérstaklega mikilvægt er að útfærslan verði ekki útvötnuð.“
Drífa segir í bréfinu að það þurfi ekki að hafa mörg orð um hversu miklum fjármunum almenningur verði af vegna vanskattlagningar á alþjóðleg fyrirtæki. „Róttækar aðgerðir á þessu sviði eru grundvöllur viðspyrnu eftir Covid-faraldurinn, sem og forsenda þess að takast á við loftslagsbreytingar. Þá þarf að kalla þessi fyrirtæki til ábyrgðar hvað varðar aðbúnað og réttindi launafólks. Það er löngu tímabært að stöðva kapphlaupið að botninum.“
Bjarni bindur vonir við samstöðu
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í viðtali við RÚV fyrir um mánuði síðan að hann vonaðist eftir samstöðu innan OECD um skattlagningu á alþjóðleg fyrirtæki. Það væri risastórt mál hvar eigi að skattleggja fyrirtæki sem selji vörur og þjónustu þvert á landamæri.
Hann ætlaði að leyfa sér að vera hóflega bjartsýnn á slík samstaða myndi nást vegna þess að á væru að takast gríðarlega miklir hagsmunir. „En OECD hefur gert kraftaverk á ýmsum sviðum á undanförnum árum, til dæmis í að uppræta skattsvik og það hefur lukkast mjög vel, upplýsingaskipti vegna skattamála hafa á undanförnum árum verið leidd af OECD og góð raun í þeim efnum er kannski eins og ísbrjótur fyrir þessa vinnu. Þannig að ég bind enn vonir við að við náum utan um þetta vegna þess að hér eru margir aðilar innanlands sem að treysta einfaldlega á að þeir geti notið sanngjarnrar samkeppnisstöðu gagnvart þessum alþjóðlegu risum.“