Sterk rök eru fyrir skattlagningu á eignir hérlendis til að sporna gegn vaxandi eignaójöfnuði, þar sem fjármagnstekjuskattur er lágur. Skynsamlega útfærður stóreignaskattur gæti skilað ríkissjóði um 20 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýbirtri skýrslu ASÍ um skattlagningu fjármagns og auðlindagjöld.
Ójafnari skattbyrði eftir afnám auðlegðarskatts
Samkvæmt skýrslunni ýtti afnám auðlegðarskatts undir ójöfnuð í samfélaginu og misskiptingu eigna. Án hans er skattbyrði þeirra allra tekjuhæstu lægri en skattbyrði annarra tekjuhárra, þar sem skattur á fjármagnstekjur er lægri en skattlagning launa. Með auðlegðarskatti var því aftur á móti viðhaldið að skattkerfið væri stigvaxandi upp alla tekjudreifinguna.
Sjá má nokkra breytingu í skattbyrði eftir tekjuhópum á milli áranna 2013, þegar auðlegðarskatturinn var enn við lýði, og 2019, samkvæmt skýrslunni. Á meðan hlutfallsleg skattbyrði efri millitekjuhópa hefur nokkurn veginn haldist óbreytt hefur skattbyrði ríkasta prósentsins lækkað töluvert og skattbyrði tekjulægri helmingsins hækkað.
ASÍ segir Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að skattlagning í heild sinni sé stigvaxandi, þannig að skattbyrðin sé þyngst hjá þeim tekjuhæstu. Sömuleiðis segja samtökin að OECD telji rök fyrir eignaskatti sterkari ef fjármagnstekjuskattur er lágur og nefni þar Norðurlönd sérstaklega í því tilliti.
Á síðasta árinu sem auðlegðarskatturinn var í gildi nam hann 12,7 milljörðum króna á núverandi verðlagi, samkvæmt skýrsluhöfundunum. Séu tekjur ríkissjóðs af eignasköttunum uppfærðar miðað við eignastöðu heimilanna hefði hann hins vegar skilað ríkissjóði á bilinu 20-28 milljörðum króna í tekjur á hverju ári núna, væri hann enn við lýði.
Gamlir eignaskattar illa hannaðir
Í skýrslunni er þó minnst á að margar Evrópuþjóðir hafi afnumið eignarskatta á síðustu áratugum, aðallega af ótta við fjármagnsflótta. Einnig voru tekjurnar af slíkum sköttum gjarnan minni en vonir stóðu til, vegna umfangsmikillar skattasniðgöngu og skattsvika.
Aftur á móti segja skýrsluhöfundar að eignaskattar hafi oft verið illa hannaðir á þessum tíma og einfalt hafi verið að komast hjá því að greiða þá. Fjölbreyttir frádráttarliðir gerðu að verkum að skattgreiðendur gátu aðlagað eignasöfn til þess að draga úr skattgreiðslum. Í ljósi þess telja þeir það vera mikilvægt að skattlagning á eignir sé vel hönnuð, verði hún að veruleika aftur.