Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands ÍSlands (ASÍ), hefur sent bréf á alla þá sem sitja í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands þar sem hún varar við því að nefndin ráðist í stórfelldar vaxtahækkanir til að bregðast við aukinni verðbólgu. Peningastefnunefndin mun tilkynna um vaxtaákvörðun sína á morgun, en greiningardeildir tveggja stærstu banka landsins, Landsbankans og Íslandsbanka, spá því að stýrivextir verði hækkaðir um 0,75 prósentustig. Gangi sú spá eftir munu stýrivextir verða 2,75 prósent og hafa þá hækkað um tvö prósentustig frá því í maí í fyrra. Stýrivextir á Íslandi yrðu þá með þeim hæstu í Evrópu. Einu löndin sem eru hluti af Evrópska efnahagssvæðinu sem eru með hætti stýrivexti en það eru Ungverjaland (2,9 prósent) og Tékkland (4,5 prósent).
Í bréfinu er nefndin hvött til þess að huga að öðrum stjórntækjum Seðlabankans í baráttu sinni við verðbólgu, sem mælist nú 5,7 prósent. Helsta ástæða þess að innlend verðbólga hefur aukist er hækkandi fasteignaverð, sem hækkaði um meira en 15 prósent á síðasta ári.
Hún segir það hafi verið mistök að grípa ekki fyrr til þjóðhagsvarúðartækja til að hægja á eftirspurn eftir húsnæði.
Seðlabankinn beitti slíkum stjórntækjum í fyrra þegar peningastefnunefnd ákvað að lækka hámark veðsetningarhlutfalls húsnæðislána úr 85 prósentum í 80 prósent, auk þess sem greiðslubyrði húsnæðislána ætti almennt að takmarkast við 35 prósent. Þar að auki hækkaði nefndin svokallaðan sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki, sem dregur úr skuldsetningu þeirra.