ASÍ skorar á íslensk stjórnvöld að nýta lögbundnar heimildir sínar til þess að stöðva gróf félagsleg undirboð gagnvart áhöfnum þeirra flugvéla sem flugfélagið Primera Air notar í rekstri sínum.
Mbl.is hefur greint frá því að grískar flugfreyjur sem hafa starfað hjá Primera Air á Íslandi frá áramótum, og voru ráðnar sem verktakar í gegnum starfsmannaleigu á Guernsey, séu með um 60 þúsund krónur í grunnlaun, eða 400 evrur á mánuði. Þess utan fá þær prósentu af sölu um borð í þeirri vél sem þær vinna í. Flugmenn voru einnig ráðnir inn með sama hætti og starfa sem verktakar þótt laun þeirra séu lægri.
Primera sagði upp samningum við íslenska flugliða flugfélagsins nýverið en tók þess í stað á leigu íbúðir á Ásbrú í Keflavík fyrir að minnsta kosti sex grískar flugfreyjur sem ráðnar voru til starfa á vegum áhafnaleigu um áramótin. Alls hefur 31 starfsmanni Primera á Íslandi verið sagt upp störfum frá því í september auk starfsmanna félagsins í Danmörku og Svíþjóð.
Í tilkynningu frá miðstjórn ASÍ er aðför Primera Air að réttindum launafólks hér á landi mótmælt harðlega. Þar segir:
Samkvæmt fréttum hefur verið upplýst að Primera Air byggi starfsemi sína og flug héðan frá Íslandi á grófum félagslegum undirboðum gagnvart áhöfnum þeirra flugvélaga sem notaðar eru í rekstri félagsins.
Miðstjórn ASÍ áréttar að um kaup og kjör þessara áhafna fer skv. íslenskum lögum og kjarasamningum, hvort heldur litið er til laga um starfsmannaleigur nr. 139/2005 eða laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands nr. 45/2007.
Primera Air stundar reglubundið flug frá Íslandi til nokkurra áfangastaða í Evrópu með flugvélum skráðum utan Íslands en á EES-svæðinu sem leigðar eru með áhöfn til þess að sinna þessu flugi.
Áhafnir þessara flugvéla, alveg eða að hluta, eiga tímabundið eða varanlega aðalstarfsstöð sína hér á landi þar sem vinna þeirra hefst og endar.
Alþýðusamböndin á öllum Norðurlöndunum líta þennan rekstur og aðferðafræði Primera Air, Ryanair og annarra álíka flugfélaga alvarlegum augum og hyggjast hindra brot þeirra með öllum tiltækum ráðum.
ASÍ mun ekki liggja á liði sínu í því efni og leitað verður allra leiða til þess að stöðva hina ólögmætu starfsemi
ASÍ skorar á íslensk að stjórnvöld að nýta lögbundnar heimildir sínar til þess að stöðva þessa brotastarfsemi félagsins þegar í stað en til þess eru heimildir bæði í lögum nr. 139/2005 og 45/2007.