Virði hlutabréfa í Netflix hríðféll í lok síðustu viku eftir að afþreyingarrisinn tilkynnti að fjölgun áskrifenda hans hafi verið undir væntingum á síðasta ársfjórðungi. Netflix stefnir á að vera með 57 milljón notendur út um allan heim í lok þessa árs, samkvæmt The Verge.
Unnið er að opna fyrir þjónustu Netflix hérlendis.
Áskrifendur færri en væntingar stóðu til
Áskrifendur Netflix voru 53,1 milljón í lok september síðastliðins. Þeim fjölgaði um þrjár milljónir á þriðja ársfjórðungi 2014. Þegar Reed Hastings, forstjóri Netflix, kynnti niðurstöður þriðja ársfjórðungs í síðustu viku þá viðurkenndi hann að fjölgun áskrifenda hefði verið lægri en bæði áætlanir félagsins og væntingar fjárfesta höfðu gert ráð fyrir. Hann væntir þess að áskrifendurnir verði orðnir 57 milljónir í lok þessa árs. Tekjur Netflix voru hins vegar í takt við væntingar á ársfjórðungnum.
Spár greiningaraðila höfðu gert ráð fyrir að áskrifendur Netflix í Bandaríkjunum yrðu 37,6 milljónir í lok september, en raunin varð sú að þeir voru um 400 þúsund færri. Utan Bandaríkjanna var búist við að fjöldi áskrifenda myndi verða tæplega 16,2 milljónir í lok þriðja ársfjórðungs, en raunin var 15,8 milljónir.
Eftir að tilkynnt var um þessa niðurstöðu hrundu hlutabréf í Netflix, en þau eru skráð í Nasdaq-markaðinn í New York. Alls féll virði bréfanna um 26 prósent daginn eftir að tilkynnt var um niðurstöðuna. Sú staða var enn uppi þegar mörkuðum var lokað á föstudag.
Vinna að uppsetningu á Íslandi
Netflix vinnur nú að því að opna fyrir þjónustu sína hérlendis. Nútíminn greindi frá því í síðustu viku. Alls eru notendur Netflix á Íslandi nú þegar yfir 20 þúsund talsins, þrátt fyrir að félagið bjóði ekki upp á þjónustuna á íslenskum markaði. Ýmsar leiðir eru til þess að nálgast hana með því að skrá notandann í öðru landi.