Skoða ætti þann möguleika að allir Íslendingar geti beint og milliliðalaust eignast hlut í Íslandsbanka eða Landsbankanum. Slíkur samfélagsbanki gæti orðið skynsamleg aðgerð bæði efnahagslega og lýðræðislega. Þetta segir Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, í grein á vefsíðu flokksins.
Ásmundur Einar gerir tillögu kröfuhafa Glitnis um að afhenda ríkinu allt hlutafé í Íslandsbanka að umtalsefni í greininni, og það að væntanlega muni íslenska ríkið eignast Íslandsbanka á næstunni. Þá verði það þannig að ríkið eigi tvo af þremur stóru bönkunum. „Það er mikilvægt að annar þessara banka verði að stórum hluta í eigu almennings í landinu. En í stað þess að ríkið eitt eigi bankann þá ættum við að skoða þann möguleika að allir Íslendingar geti beint og milliliðalaust eignast hlut í öðrum þessara banka,“ segir Ásmundur í greininni. Í framhaldi af þessu yrði mótuð stefna sem hefði það markmið að bjóða sem hagkvæmasta þjónustu og tryggja hagsmuni almennings.
„Í raun ætti að skoða þann möguleika að afhenda almenningi hluta bankans gegn skýrum skilyrðum og á hagstæðum kjörum. Verði þetta skoðað þá þarf hinsvegar að móta mjög skýrar og gegnsæjar reglur sem tryggja að ekki sé um að ræða aðkomu fárra útvaldra og að ekki sé hægt að framselja hlutina í von um skyndigróða.“
Lengi ljóst að Framsókn vill samfélagsbanka
Flokksþing Framsóknarflokksins samþykkti í vor ályktun um að Landsbankinn yrði í ríkiseigu áfram og starfi sem samfélagsbanki.„Landsbankinn verði samfélagsbanki í eigu þjóðarinnar með það markmiði að þjóna samfélaginu í stað þess að hámarka hagnað. Til að bregðast við fákeppni á bankamarkaði er nauðsynlegt að Landsbankinn hafi þann tilgang að bjóða góða þjónustu á bestu kjörum til að efla samkeppni í bankaþjónustu á landsvísu. Landsbankinn verði bakhjarl sparisjóðakerfisins.“
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á annarri skoðun og samkvæmt drögum að landsfundarályktun telur flokkurinn enga þörf á því að bankar séu í eigu ríkisins. „Fyrirséð er að eignarhald á bönkum breytist á næstu árum. Landsfundur áréttar að engin þörf er á eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum til lengri tíma litið. Tryggja þarf dreifða eignaraðild að viðskiptabönkum. Mikilvægt er að söluferli viðskiptabankanna verði opið og gagnsætt“.