Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra er eini ráðherrann í ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sem meirihluti þjóðarinnar ber mikið traust til, samkvæmt nýrri könnun frá Maskínu um traust til ráðherra. Traust til Ásmundar Einars hefur þó dregist saman um 11 prósentustig undanfarið misseri og mælist nú 52 prósent.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra er á móti sá ráðherra sem flestir bera lítið traust til, en 70,7 prósent landsmanna vantreysta Bjarna, samkvæmt niðurstöðum Maskínu. Rúm 18 prósent aðspurðra sögðust bera mikið traust til Bjarna, ögn fleiri en sögðust treysta Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra, sem er sá ráðherra sem fæstir bera traust til.
Er Maskína spurði þessarar sömu spurningar skömmu eftir að ný ríkisstjórn tók við keflinu undir lok síðasta árs voru þeir ráðherrar sem nutu mikils trausts yfir helmings svarenda þrír talsins, en bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hafa fallið úr þeim flokki.
Traust til Katrínar hefur rýrnað um 17 prósentustig og segjast nú 45 prósent bera mikið traust til hennar en traust til Sigurðar Inga hefur dregist saman um heil 22 prósentustig og 33 prósent segjast nú treysta Sigurði Inga.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra nýtur 41 prósent trausts, Lilja Alfreðsdóttir viðskipta- og menningarráðherra nýtur 33 prósent trausts, þau Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson orku- og umhverfismálaráðherra njóta um 31 prósent trausts og prósentustigi færri segjast treysta Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur utanríkisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra nýtur mikils traust um 26 prósent aðspurðra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra nýtur 22 prósenta trausts og svo reka þeir Bjarni og Jón lestina, sem áður segir.
Tæp 24 prósent þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í haust vantreysta Bjarna
Í skýrslu frá Maskínu með niðurbroti um traust mismunandi þjóðfélagshópa til hvers og eins ráðherra má sjá hvernig traust til ráðherra skiptist eftir stjórnmálaskoðunum svarenda.
Bæði er hægt að glöggva sig á afstöðu svarenda eftir því hvernig þeir segjast ætla sér að kjósa til Alþingis ef kosið væri dag og einnig eftir því hvernig þeir segjast hafa kosið til Alþingis síðasta haust.
Í hópi þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn síðasta haust segjast tæp 27 prósent bera mjög mikið traust til Bjarna Benediktssonar og 34 prósent til viðbótar segjast bera frekar mikið traust til flokksformannsins.
Rúm 15 prósent svara því til að þau beri hvorki mikið né lítið traust til Bjarna, en 23,8 prósent þeirra sem segjast hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn síðasta haust segjast nú bera frekar lítið eða mjög lítið traust til Bjarna.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) á netinu, dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá. Alls voru svarendur 929, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 20. til 25. apríl 2022.