Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun áfram leiða Framsóknarflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi suður í komandi þingkosningum. Hún sat í sama sæti í kosningunum haustið 2017 og varð þá síðasti kjördæmakjörni þingmaður kjördæmisins eftir að hafa hlotið 8,1 prósent atkvæða þar. Í öðru sæti á lista flokksins í Reykjavík suður verður Aðalstein Haukur Sverrisson, framkvæmdastjóri, en hann sat í tíunda sæti á lista flokksins í kjördæminu fyrir tæpum fjórum árum síðan.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, leiðir lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður en hann ákvað fyrir nokkru að færa sig um kjördæmi eftir að hafa verið oddviti Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi síðast þegar kosið var. Í öðru sæti á lista Framsóknar í norðurhluta höfuðborgarinnar situr Brynja Dan Gunnarsdóttir, frumkvöðull og framkvæmdastjóri sem stendur meðal annars að rekstri Extraloppunnar. Framsókn var langt frá því að ná inn kjördæmakjörnum manni í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu þingkosningum þegar flokkurinn fékk einungis 5,3 prósent atkvæða þar. Þá leiddi Lárus Sigurður Lárusson lögmaður lista flokksins.
Í þriðja sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður er Sigrún Elsa Smáradóttir, framkvæmdastjóri og fyrrverandi borgarfulltrúi, í fjórða sæti er Íris E. Gísladóttir, frumkvöðull í menntatækni og í fimmta sæti er Þorvaldur Daníelsson, stofnandi Hjólakrafts og MBA.
Í norðurhlutanum er Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, fráfarandi formaður Landssambands eldri borgara, í þriðja sæti, í fjórða sæti er Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari og í fimmta sæti er Magnea Gná Jóhannsdóttir, laganemi.
Framsóknarflokkurinn mældist með 10,1 prósent fylgi í síðustu könnun Gallup og dróst fylgi flokksins saman um eitt prósentustig milli mánaða. Hann fékk 10,7 prósent atkvæða í kosningunum 2017 sem er það minnsta sem þessi tæplega 105 ára gamli flokkur hefur nokkru sinni fengið í sögu sinni.