Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir í samtali við RÚV það hafa verið „athyglisvert“ að fylgjast með fólki túlka orð hans um hvalveiðar undanfarna viku. Í viðtali við Skessuhorn í síðustu viku sagði Gunnar Bragi tímabært að endurskoða hvalveiðar við Ísland vegna þrýstings alþjóðasamfélagsins.
Jón Gunnarsson
Haft er eftir Jóni Gunnarssyni, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, á vef RÚV að hann sé „algjörlega ósamála Gunnari Braga í þessari nálgun hans á málinu.“ Á Facebook hefur hann jafnframt farið mikinn bent þeim á sem segja hvalveiðar standa ferðaþjónustu fyrir þrifum að slíkar fullyrðingar standist enga skoðun.
„Bendi á að þegar atvinnuveiðar voru heimilaðar drógu andstæðingar upp mjög dökka mynd af neikvæðum áhrifum á ferðaþjónustu og útflutningsgreinar,“ skrifaði Jón. „Ekkert af þessu gekk eftir. Í öðru lagi þá snýst málið um sjálfstæðan rétt okkar um sjálfbæra nýtingu auðlinda og rétt einstaklinga til atvinnufrelsis, grundvallarréttindi sem Sjálfstæðismenn standa vörð um.“
Enn í samtali við RÚV sagði Jón að honum þætti jafnvel eðlilegt að auka hvalveiðar hér við land. Gunnar Bragi segist hafa viljað benda á þann þrýsting sem Íslendingar verða fyrir á alþjóðavettvangi vegna hvalveiðanna. „[…] það er umhugsunarefni fyrir okkur hvort við ættum ekki að koma til móts við alþjóða hvalveiðiráðið til að mynda með því að veiða færri hvali árlega en við gerum nú,“ lét Gunnar Bragi hafa eftir sér í viðtalinu í Skessuhorni.
„Ég reyndar ítreka í viðtalinu að við megum aldrei gefa eftir rétt okkar til að veiða hvali. Ég vil líka taka fram að hrefnan er undanskilin við þetta. Ég held að við eigum að veiða hrefnuna sem aldrei fyrr,“ segir Gunnar Bragi í samtali sínu við RÚV. „Ég taldi það skyldu mína að velta þessu upp, hvort það geti þjónað hagsmunum okkar. En það ekki mitt að ákveða það.“