Áttunda umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta fer fram um helgina. Eins og þeir vita sem fylgjast með enska boltanum, trónir Chelsea á toppi deildarinnar, hefur hlotið nítján stig eftir sjö leiki, með fimm stiga forskot á Englandsmeistara Manchester City.
Stórleikur umferðarinnar fer fram í hádeginu í dag á Etihad leikvanginum í Manchester, þar sem heimamenn í Manchester City taka á móti Tottenham. Annars verður að segjast eins og er að það er fátt um fína drætti í enska boltanum um helgina, hvað stórleiki varðar.
Kjarninn fékk engu að síður Atla Fannar Bjarkason, ristjóra Nútímans, til að spá fyrir um úrslit leikjanna í áttundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Manchester City 3- 0 Tottenham

Tottenham er fyrir ensku knattspyrnuna það sem Fanta Lemon er fyrir gosdrykki: Einhvern veginn aldrei til staðar nema örsjaldan og er þá ógeðslega gott. Fanta Lemon er ekki fáanlegt í dag og City tekur þennan leik auðveldlega.
Arsenal 0-0 Hull

Ég efast reyndar um að Arsenal nái í lið þar sem meiðslalistinn þeirra er lengri en gestalistinn hans Ingós. Þetta verður leiðinlegur leikur.
Burnley 0-2 West Ham

Samkvæmt einföldum tölfræðireikningi er mjög ólíklegt að Burnley skori mark. Hamrarnir eru hins vegar flottir, taka þennan leik auðveldlega.
Crystal Palace 1-4 Chelsea

Áfram heldur stærsta lygi fótboltans um að Diego Costa sé eitthvað tæpur. Hann er gulur í Fantasy en spilar pottþétt á laugardaginn og skorar tvö. Chelsea er á óþolandi rönni en fer að tapa þegar Móri byrjar að mæta á æfingar með Napoleónshatt og varalit.
Everton 2-3 Aston Villa

Þarna mætast tvö lið sem ég skil ekkert í. Skil ekki af hverju Everton eru svona glataðir og skil alls ekki af hverju Aston Villa eru svona fínir. Þetta verður leikur helgarinnar. Mörk, tæklingar, spjöld og stuð.
Newcastle 0-1 Leicester

Það verða fleiri spjöld í þessum leik en í spilastokki í sumarbústað (43). Ég fór á Borgríki 2 í vikunni og þessi leikur verður svipaður: Nóg af ofbeldi en minna af kynlífi.
Southampton 1-0 Sunderland

Þetta Southhampton lið er áttunda undur veraldar. Sést úr geimnum og enginn veit hvernig svona frambærilegt lið varð til eftir að stóru liðin sópuðu upp leikmönnum eins og þeir væru sófaborð í Söstrene Grene.
QPR 1-2 Liverpool

Þessi spá byggist á tilfinningarökum. Mínir menn eru búnir að vera vonlausir í haust og þessi leikur skelfir mig. Í fyrra vissi maður að ef mótherjarnir skoruðu tvö myndi Liverpool bara skora fjögur. Ég vil þennan tíma aftur.
Stoke 0-3 Swansea

Hollendingaslátrarinn Gylfi Sigurðsson mætir lemstraður úr landsleikjastuðinu en skorar og gefur stoðsendingu. Venjulegur dagur á skrifstofunni hjá Gylfa.
West Brom 2-2 Man Utd

Manchester United tapaði fyrir Leicester í mest brútal fótboltaleik sem ég hef séð. Þá held ég að litlu liðin í deildinni hafi verið eins og lúðar í grunnskóla sem sáu loksins veikleika bekkjarhrottans. West Brom mæta því sturlaðir til leiks. Bekkjarhrottinn er hins vegar búinn að vera duglegur í ræktinni og tekur anabólískur á móti lúðunum. Þetta endar illa fyrir alla.