Yanis Varoufakis, sem var fjármálaráðherra í Grikklandi þangað til í sumar, gagnrýnir nú fyrrum nánasta samstarfsmann sinn, forsætisráðherrann Alexis Tsipras, harðlega.
Frá því að Varoufakis sagði af sér embætti óvænt, daginn eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um neyðarlánapakka frá lánardrottnum Grikkja, hefur verið nokkurs konar vopnahlé á milli þeirra. Nú er Varoufakis hins vegar kominn í hóp annarra háttsettra manna sem áður voru í Syriza-flokknum, sem ráðast gegn Tsipras.
Varoufakis er í viðtali við New Review í kvöld og gagnrýnir þar stefnu Tsiprsas. Hann segir að Tsipras hafi ákveðið að "gefast upp" fyrir kröfum lánardrottnanna sem hafa haldið Grikkjum á floti. Í stað þess að vera trúr kosningaloforðum flokksins hafi hann leyft egóinu að ná tökum á sér og hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að verða "næsti De Gaulle, eða Mitterrand líklegar."
Gagnrýni Varoufakis er í takt við aukna gagnrýni meðal vinstri sinnaðasta hópsins sem var innan Syriza, en 25 þingmenn hið minnsta hafa yfirgefið flokkinn og myndað nýjan. Þeir ætlar að reyna að mynda bandalög með öðrum sem eru mótfallnir aðhaldsaðgerðum.
Nú, tæpum átta mánuðum eftir hinn sögulega sigur Tsipras, Varoufakis og félaga í Syriza, eru þeir báðir horfnir á braut og verulega umdeilanlegt þykir, hvort þeir hafi náð miklum árangri við að endursemja um skuldum vafinn þjóðarhag Grikklands. Tsipras sagði af sér á fimmtudaginn sem forsætisráðherra og boðaði um leið til kosninga í landinu 20. september.
Vaxandi þrýstingur var á hann innan úr Syriza flokknum, þar sem mikil óánægja var með það samkomulag sem að lokum var gert við kröfuhafa. Varoufakis var þá þegar búinn að segja af sér sem fjármálaráðherra, enda var hann æfur yfir samkomulaginu og afar ósáttur við að Grikkir hafi verið „þvingaðir til þess að taka á sig skuldir sem þeir ráða ekki við“ eins og hann komst sjálfur að orði.
Samkomulagið við kröfuhafa, sem samþykkt hefur verið í gríska þinginu og þegar er byrjað að vinna eftir, gerir ráð fyrir 86 milljarða evra lánveitingum, sem er risavaxin fjárhæð fyrir ríflega ellefu milljóna þjóð. Skuldir hins opinbera eru svimandi háar sömuleiðis og nema um 175 prósentum af árlegri landsframleiðslu. Um tuttugu milljarðar evra a þessari heildaráætlun fara í endurskipulagningu á fjármálakerfi landsins, sem er að hruni komið, en stór hluti afgangsins fer í að endurfjármagna skuldir og styrkja rekstur hins opinbera.
Eftir að mikill meirihluti grísku þjóðarinnar hafnaði samkomulagi við kröfuhafa í þjóðaratkvæðagreiðslu, 6. júlí, hefur mikið vatn runnið til sjávar.
Á aðeins rúmlega sex vikum hefur Syriza flokkurinn misst vopnin og glímir við miklar innanflokksdeilur, sem ekki sér fyrir endann á. Kosningarnar 20. september marka því enn á ný tímamót í grískt þjóðlíf, og nýtt upphaf í stjórnmálalífinu á sama tíma.