Pólitísk átök um flugvöllinn í Vatnsmýrinni hafa farið harðnandi að undanförnu og var Dagur B. Eggertsson borgarstjóri til viðtals um málefni flugvallarins í Kastljósi RÚV í gær, ásamt fleiri málefnum sem snúa að Reykjavíkurborg. Dagur telur öruggt að loka hinni svokölluðu neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli. Borgaryfirvöld hafa ákveðið að loka brautinni og andstaða við þá ákvörðun er nokkuð mikil, ekki síst úr hópi Framsóknarflokksins og flugvallarvina og annarra yfirlýstra andstæðinga þess að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni.
Jón Ingi Gíslason, sem er virkur í starfi Framsóknarflokksins og flugvallarvina í Reykjavík, deildi myndbandi á Twitter-síðu sinni í morgun þar sem sjónarmiðum gegn þessari ákvörðun borgaryfirvalda er komið á framfæri, inn á milli myndskeiða í viðtalinu, undir því yfirskini að um leiðréttingu á málflutningi borgarstjórans sé að ræða.
Hér er viðtalið við Dag eftir að "villupúkinn" hefur verið virkjaður. Ekki veitti nú af. Helgi Seljan. Sniðugt... http://t.co/YrmxiBDNye
— Jón Ingi Gíslason (@Joningig) February 4, 2015
Auglýsing
Dagur sagði í viðtalinu í Kastljósinu að hann undraði sig á því hversu mikil harka væri viðvarandi í umræðu um flugvöllinn. Sagði hann sérstaklega „sorglegt“ þegar hún beindist gegn embættismönnum og fólki sem væri að sinna sértækum verkefnum sem væru hluti af rannsóknum til þess að undirbyggja ákvarðanir betur. Hann sagði mikilvægt að virða þá ferla sem væri búið að setja af stað, og reyna að leysa úr málum þyrfti að leysa úr. Ákvörðun um að loka hinni svokölluðu neyðarbraut byggði á slíkri vinnu, meðal annars ítarlegum gögnum um lendingar sjúkraflugs á flugvellinum. „Það er búið að fara yfir níu ára reynslu, eða hvað það var, af öllum lendingum á brautinni, fyrir sjúkraflug og innanlandsflug, til þess að svara þessum spurningum. Og til þess eru færir sérfræðingar, sem kunna með þetta að fara, kallaðir til. Og mér sýnist allir vera að vanda sig við þetta. Og það er ekkert sem ég hef séð í þeim gögnum eða þessu máli, sem bendir til annars en að það sé öruggt að loka þessari braut og að það þurfi ekki að opna sambærilega braut í Keflavík. En það er ekki mitt að svara. Ég svara því ekki, eða borgin, hvort það þurfi að opna sambærilega braut í Keflavík. Það eru auðvitað flugmálayfirvöld sem gera það,“ sagði Dagur.
„Umræðan um völlinn virðist alltaf þurfa að vera rosalaega hörð[...]Mér finnst í raun sorlegt, eða sérkennilegt, að spjótin þurfi að beinast út um allt. Til dæmis að embættismönnum sem eru að vinna að sértækum verkefnum, eða verkfræðingum sem eru að taka saman gögn um vindmælingar,“ sagði Dagur.
Myndbandið, þar sem öðrum sjónarmiðum en þeim sem Dagur talaði fyrir er komið á framfæri, sést hér að neðan.
https://www.youtube.com/watch?v=-fcPTQDzYXw&feature=youtu.be