Alls verða átta manns í framboði í rafrænu forvali Vinstri grænna í Reykjavík, sem fram fer dagana 2.-5. mars. Í forvalinu verður kosið í efstu þrjú sætin á lista hreyfingarinnar til borgarstjórnar Reykjavíkur.
Þrjár sækjast eftir því að leiða listann, þær Líf Magneudóttir borgarfulltrúi, Elín Oddný Sigurðardóttir varaborgarfulltrúi og Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur, sem einnig er formaður Vinstri grænna í Reykjavík.
Fimm manns gefa svo kost á sér í 2. sæti eða 2.-3. sæti, þrír karlar og tvær konur. Andrés Skúlason verkefnastjóri og fyrrverandi oddviti á Djúpavogi og Stefán Pálsson sagnfræðingur gefa kost á sér í annað sætið.
Eftir 2.-3. sætinu sækjast svo þau Elínrós Birta Jóns- og Valborgardóttir sjúkraliði, Bryngeir Arnar Bryngeirsson tómstunda- og félagsmálafræðingur og gönguleiðsögumaður og Íris Andrésdóttir grunnskólakennari.
Kjörskrá lokar 10 dögum fyrir kosningar
Kosningarétt í forvalinu hafa þeir félagar í Vinstri grænum í Reykjavík sem eru skráðir félagar tíu dögum fyrir upphaf kosningar, og því þurfa nýir félagar að skrá sig í síðasta lagi fyrir lok sunnudagsins 20. febrúar til að geta kosið.
Þegar niðurstöður forvalsins liggja fyrir mun kjörstjórn vinna tillögu að fullskipuðum framboðslista sem lögð verður fram til samþykkis á félagsfundi Vinstri grænna í Reykjavík.
Vinstri græn eiga einn borgarfulltrúa í dag, en flokkurinn fékk 4,6 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum árið 2018 og tapaði þá hátt í fjórum prósentustigum frá sveitarstjórnarkosningunum árið 2014. Fjöldi borgarfulltrúa VG hélst þannig óbreyttur, þrátt fyrir að verið væri að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23.