Nokkuð dró úr þröngum húsakosti heimila í fyrra, miðað við árið 2020, samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Alls var þröngbýlt á tæplega 13 þúsund heimilum í fyrra, eða hjá um átta prósentum allra heimila, á meðan ástand húsnæðis var slæmt hjá áttunda hverju heimili.
Hagstofan hefur nú birt nýjar tölur úr lífskjararannsókn sinni, en þar eru um fimm þúsund einstaklingar valdir af handahófi úr Þjóðskrá og spurt út í heimilisaðstæður þeirra. Samkvæmt Hagstofu er þröngbýlt á heimilum ef einhleypir einstaklingar og pör hafa ekki eitt herbergi út af fyrir sig. Sömuleiðis telur stofnunin að það sé þröngbýlt ef fleiri en tvö ungmenni eru á hvert herbergi.
Líkt og sést á mynd hér að neðan stórjókst þröngbýlið á tímabilinu 2016-2018, þar sem hlutfall heimila með þröngan húsakost hækkaði úr sjö prósentum í tíu prósent. Í fyrra fækkaði svo þröngbýlum heimilum um 1.500 talsins og eru þau nú tæplega 13 þúsund. Þetta jafngildir um átta prósentum af heildarfjölda heimila, sem er nálægt meðaltali síðustu tuttugu ára.
Mest var þröngbýlið í fjölbýlishúsum, en þar fellur ein af hverjum átta íbúðum undir þá skilgreiningu. Til samanburðar eru einungis fjögur prósent af öllum raðhúsum og einbýlishúsum of þétt setin.
Hagstofan mælir einnig fjölda heimila þar sem ástand húsnæðis er talið lélegt. Hlutfall slíkra heimila náði hámarki árið 2008, en þá var tæplega fimmta hvert heimili í slæmu ásigkomulagi. Síðan þá hefur hlutfallið svo lækkað, en nú er ástand húsnæðis lélegt í einu af hverjum átta heimilum.
Öfugt við mælingarnar um þröngbýli eru einbýlishús líklegust til að vera í slæmu ásigkomulagi, en 15 prósent þeirra falla undir þá skilgreiningu. Til viðmiðunar er ástand aðeins 10 prósenta allra íbúða í stórum fjölbýlishúsum talið slæmt.