Merki um að vinnumarkaður hafi sótt í sig veðrið að undanförnu sjást víða. Veitingahús og verslanir leita að starfsfólki og síðastliðna helgi spönnuðu atvinnuauglýsingar í Fréttablaðinu 23 blaðsíður samanborið við 17 þann 23. ágúst á síðasta ári. Útlit er fyrir að þróunin haldi áfram, þótt atvinnuleysið fari ekki mikið neðar en það er í dag en á 2. ársfjórðungi mældist atvinnuleysi fimm prósent.
Þetta segir greiningardeild Arion banka í dag sem spyr hvort erlent vinnuafl streymi til landsins á næstu árum. Til þess að vinnumarkaður haldi dampi þurfi fólki á vinnualdri að fjölga, bæði þurfi stórar árgangar að koma á vinnumarkað og aðfluttir þurfa að vera fleiri en brottfluttir. Það er mat greiningardeildarinnar að miðað við björtustu spár um ferðamannaiðnaðinn, þá gæti íslenskur vinnumarkaður reynst „hraðahindrun“ í fjölgun ferðamanna.
„Það virðist einmitt vera að eiga sér stað,“ segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka um fjölgun erlends vinnufólks hérlendis. „Samkvæmt spá Seðlabankans mun starfandi einstaklingum fjölga um samtals 13.000 fram til ársins 2018 en á sama tíma er spáð að mannaflinn aukist um 11.500 einstaklinga. Á tímabilinu gerir Hagstofan ráð fyrir að 63% af fólksfjölgun verði til komin vegna fæddra umfram dána og hin 37% vegna aðfluttra umfram brottfluttra. Ef við gerum ráð fyrir að mannaflinn skiptist eins, munu því rúmlega 4.000 manns flytja til landsins og koma inn í mannaflann fram til ársins 2018,“ segir í Markaðspunktum.
„Í ljósi fjölgunar ferðamanna, hagvaxtarhorfa og uppgangs t.d. í byggingariðnaði er mögulegt að eftirspurn eftir starfsfólki verði mun meiri en sem mannfjöldaspá Hagstofunnar nemur? Mjög erfitt er að spá nákvæmlega fyrir um hvort svo verði, en sé nánar rýnt í þróun á vinnumarkaði er sennilegt að flytja þurfi inn meira af erlendu vinnuafli hingað til lands en spár gera ráð fyrir.“
Spurt er hvort íslenskt vinnuafl geti tekið á móti fleiri ferðamönnum. „Á árunum fyrir fjármálakreppuna var algengt að erlendir verkamenn störfuðu í byggingariðnaði. Líklegt er að erlendu vinnuafli fjölgi þar á næstunni þar sem vaxandi umsvif eru í þeim geira um þessar mundir og stórar framkvæmdir, t.d. í kísilverum, eru á teikniborðinu. Í dag búum við einnig við mjög umsvifamikla ferðaþjónustu, sem krefst mikils mannafla og vandséð er hvernig íslenskur vinnumarkaður mun geta brugðist við áframhaldandi fjölgun ferðamanna um tugi prósenta án þess að flutt verði inn erlent vinnuafl í stórum stíl. Til dæmis lítur út fyrir að erlendum ferðamönnum muni fjölga um 27-28% í ár.
Það er mat greiningardeildar bankans að miðað við björtustu spár um fjölgun ferðamanna á næstu árum þá gæti íslenskur vinnumarkaður reynst hraðahrindrun þegar kemur að fjölgun ferðamanna. „Ef fjölgun ferðamanna heldur áfram með jafn miklum hraða og vöxtur verður í öðrum atvinnugreinum, t.d. byggingariðnaði, er mjög líklegt að flutt verði inn erlent vinnuafl í meira mæli en spár gera ráð fyrir.“