Atvinnuleysi á evrusvæðinu minnkaði á milli mánaða og hefur ekki verið minna síðan í apríl 2012, samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Það mældist 11,2 prósent í janúar, sem þýðir að rúmlega átján milljónir manna eru án vinnu á svæðinu, 140 þúsundum færri en í desember.
Áfram er minnst atvinnuleysi í Þýskalandi, 4,7 prósent, og í Austurríki, 4,8 prósent. Mest er atvinnuleysið í Grikklandi, 25,8 prósent, og á Spáni, 23,4 prósent. Atvinnuleysi meðal ungs fólks er áfram hátt, en 22,9 prósenta atvinnuleysi er á evrusvæðinu meðal fólks undir 25 ára aldri.
Innan alls Evrópusambandsins mælist atvinnuleysi nú 9,8 prósent, en það var 9,9 prósent í desember síðastliðnum. 23,8 milljónir manna eru án vinnu í ESB, þar af 4,8 milljónir fólks undir 25 ára.
Euro area unemployment rate at 11.2% and EU at 9.8% in January 2015 #Eurostat http://t.co/FIYzl8vL2A pic.twitter.com/QLwM9ZpnId
— EU_Eurostat (@EU_Eurostat) March 2, 2015
Verðbólga eykst á ársgrundvelli
Ársverðbólga á evrusvæðinu var neikvæð um 0,3 prósent í febrúar samkvæmt nýjum bráðabirgðatölum frá Eurostat. Verðhjöðnun mældist -0,6 prósent í janúar og hefur því verðbólga aukist milli mánaða. Verð á þjónustu hækkar um 1,1 prósent og verð á mat, áfengi og tóbaki um 0,5 prósent. Lækkandi orkuverð hefur áfram mest áhrif á verðbólgutölurnar, en orkuverð lækkaði um 7,9 prósent, miðað við 9,3 prósent í janúar.
Euro area annual inflation up to -0.3% in February 2015 - flash estimate from #Eurostat http://t.co/4S5qu0NtIj pic.twitter.com/c1dsimQNlh
— EU_Eurostat (@EU_Eurostat) March 2, 2015