Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) hefur ákveðið að áfrýja ekki niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur um frávísun mála gegn tveimur vefverslunum sem höfðuð voru í þeim tilgangi að stöðva sölu áfengis í gegnum þær innanlands.
Í tilkynningu á vef ÁTVR segir að stofnunin telji að slík vefverslun samrýmist ekki lögum, gangi gegn einkaleyfi ÁTVR og sé í beinni andstöðu við gildandi áfengis- og lýðheilsustefnu. Héraðsdómur vísaði hins vegar öllum kröfum ÁTVR í málarekstrinum frá. Í ljósi þess að bæði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sem fer með málefni laga um verslun með áfengi og tóbak, og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra, sem fer með áfengislögin, hafi lýst því yfir að þeir telji nauðsynlegt að endurskoða og skýra lög og regluverk um smásölu áfengis hafi ÁTVR „ákveðið að una niðurstöðu héraðsdóms í trausti þess að löggjafinn og eftirlitsaðilar taki á málinu.“
Töldu brotið á einkarétti sínum
Kjarninn greindi frá niðurstöðu héraðsdóms í málunum tveimur, sem höfðuð voru gegn vefverslununum Sante og Bjórlandi, þann 18. mars síðastliðinn.
ÁTVR, sem er ríkisfyrirtæki en heyrir samt sem áður ekki undir sérstaka stjórn, taldi að fyrirtækin hafi brotið gegn áfengislögum með starfsemi sinni og brotið á einkarétti sínum til smásölu á áfengi. Ríkisfyrirtækið vildi að Sante og Bjórland myndu láta af viðskiptum með áfengi og að bótaskylda fyrirtækjanna gagnvart sér yrði viðurkennd.
Ekki hlutverk ÁTVR að hafa eftirlit með einkarétti
Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í málunum tveimur kom fram samhljóma niðurstaða. Þar var tekið undir sjónarmið Sante og Bjórlands um að ÁTVR hafi ekkert með svona málarekstur að gera.
Lög feli ÁTVR það markmið að vinna gegn misnotkun áfengis og takmarka í því skyni aðgengi að og framboð á áfengi. „En þó að stefnanda sé að lögum falinn einkaréttur eða einkaleyfi til smásölu á áfengi telst það ekki meðal verkefna hans að viðhalda einkaréttinum eða vernda hann með málsóknum fyrir dómstólum. Allt eftirlit samkvæmt lögum er falið öðrum stjórnvöldum. Löggjafinn hefur þannig ákveðið í hvaða farveg brot gegn einkarétti stefnanda eigi að fara og sú eftirfylgni eða eftirlit er ekki í höndum stefnanda.“
ÁTVR sýndi ekki fram á tjón
Varðandi viðurkenningu á skaðabótakröfu þá komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ÁTVR hafi ekki í málatilbúnaði sínum „freistað þess að upplýsa nánar eða leggja fram gögn um það tjón sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna háttsemi stefnda […] Að mati dómsins skorti því verulega á að fullnægt sé þeim skilyrðum sem gerð eru til sönnunar á tilvist tjóns í málum sem höfðuð eru til viðurkenningar á bótaskyldu“.
Að endingu sagði í dómunum að annmarkar og vankantar á málatilbúnaði ÁTVR hafi leitt, „hver og einn og allir í senn, til þess að óhjákvæmilegt er að vísa máli þessu frá í heild sinni frá dómi“.
ÁTVR var gert að greiða Arnari Sigurðssyni, Sante ehf. og Sante SAS samtals 1.650 þúsund krónur í málskostnað og Bjórlandi 950 þúsund krónur.
Tveir ráðherrar stigu inn
Upphaflega tilkynnti ÁTVR að stofnunin ætlaði að áfrýja niðurstöðunni. Bjarni Benediktsson, sem stýrir því ráðuneyti sem ÁTVR heyrir undir, sagði hins vegar 22. mars síðastliðinn að hann sæi ekki ástæðu til að áfrýja niðurstöðunni og að honum þætti „þetta ágætlega rökstuddur dómur.“
Hann teldi að vefverslun með áfengi væri að breyta leikreglunum og að núverandi áfengislög hefðu ekki að öllu leyti verið smíðuð með hliðsjón af þeim veruleika. „Í mínum huga er þetta þó nokkuð skýrt, þ.e. að það væri mjög einkennilegt að líta þannig á að vefverslun innan EES væri heimil en vefverslun innlendra aðila væri sérstakt vandamál.“ Tímabært væri að heimila vefverslun með áfengi.
Daginn eftir sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra við RÚV að núverandi fyrirkomulag áfengissölu í landinu væri komið að þolmörkum. Hann ynni að frumvarpi um breytingu á áfengislögum þar sem erfitt væri að viðhalda einokun ÁTVR á sölu áfengis.