Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar hvetur Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra til að nýta sína pólitísku inneign til að „fá hennar kæru vini í Sjálfstæðisflokknum til að skipta um skoðun“ varðandi nýja auðlindaákvæðið sem til stendur að setja í stjórnarskrána ef samkomulag næst um málið. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Þingmaðurinn bað forsætisráðherra að fá Sjálfstæðismenn með sér í lið til að gera auðlindaákvæðið algerlega ótvírætt; að tímabundna samninga þyrfti til þess að vera með afnot og aðgang að auðlindum þjóðarinnar. „En hún vill ekki nýta þessa inneign sína í þetta, gott og vel,“ sagði Þorgerður Katrín um forsætisráðherra.
Katrín sagði að fyrsta umræða, þegar mælt var fyrir málinu, hefði verði málefnaleg og að hún áttaði sig á því að ekki væri samstaða um ákvæðið. Ekki stæði á henni í þessu máli og hefði hún sagt það margítrekað að hún teldi mjög mikilvægt að ná fram einhverjum breytingum á stjórnarskrá.
Hefði viljað sjá stærri skref
Þorgerður Katrín sagði að skynsamlegt væri að taka að einhverju leyti stjórnarskrárbreytingar í gegnum þingið og sýna það að þingið gæti breytt stjórnarskránni. „Ég hefði viljað sjá stærri og meiri skref, það er til dæmis ekkert launungarmál að við deildum um jafnt vægi atkvæða. En það var samkomulag um það í upphafi að fjalla næst um það. En þegar rökræðukönnunin sem gerð var sýndi ótvírætt fram á vilja þjóðarinnar til að breyta því fyrirkomulagi hefði ég gjarnan viljað hafa það með. En gott og vel, það varð ekki.“
Skilaboð þingmannsins til Katrínar eru þau að Viðreisn standi ekki í vegi fyrir því að sumar breytingar á stjórnarskrá fari í gegnum þingið.
„Hins vegar er líka meirihluti fyrir því hjá ríkisstjórninni að ýta áfram auðlindaákvæðinu. Gott og vel. Ef það kemur hingað þá ætla ég líka að segja að ég mun ekki fara í málþóf varðandi það ömurlega ákvæði, heldur einfaldlega láta þjóðina taka afstöðu til þess þegar þar að kemur,“ sagði hún og hvatti Katrínu til dáða í þessum efnum og undirstrikaði að hún vildi ekki að þessi mál yrðu föst í nefnd. „Ég held að við eigum að reyna að gera allt til þess að taka skref í þessu skyni og afgreiða að minnsta kosti hluta þeirra.“
Samhljómur um sumar breytingar
Katrín svaraði og sagði að þegar hún mælti fyrir þessu máli í febrúar hefði henni fundist fyrsta umræða um frumvarpið vera góð umræða. „Mér fannst hún málefnaleg. Ég dró það út úr þeirri umræðu að það kynni að vera samhljómur um ýmsar þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu þó að það sé augljóslega ekki samhljómur um allar breytingar.“
Hún sagðist auðvitað ekki vera sammála Þorgerði Katrínu um auðlindaákvæðið en hún telur það einmitt vera skýrt og „snúast um grundvallarreglurnar sem við viljum setja um auðlindanýtingu í samfélaginu. Mér finnst þetta vera gott ákvæði. Ég átta mig hins vegar á því að það er ekki samstaða um það. Ég veit að kallað hefur verið eftir því í háttvirt stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvort unnt sé að ná saman um einhver ákvæði, hvort það séu einhver ákvæði sem háttvirtir þingmenn sem þar sitja telja flöt á að sameinast um, þó að það sé ekki allt. Þá er það auðvitað hægur vandi fyrir nefndina að afgreiða hluta málsins í samstöðu og skilja þá önnur mál eftir til frekari úrvinnslu síðar meir. Ég hef hvatt til þess ef slíkur vilji er fyrir hendi.“
Sagði hún að sú pressa sem skapast á afgreiðslu stjórnarskrárbreytinga í aðdraganda kosninga gerði fólki mjög erfitt fyrir að ná saman um mál sem jafnvel væri hægt að ná saman um undir öðrum kringumstæðum. „Þannig að ég ætla bara að fá að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel, með þennan margbreytilega þingheim og fjölda flokka, að þetta verkefni muni reynast okkur erfitt ef við viljum reyna að ná fram breytingum í samstöðu, sem ég held að sé vilji langflestra hér inni.“
Tækifæri til að taka ákveðin skref
Þorgerður Katrín kom aftur í pontu og benti á að grundvallarágreiningur þeirra á milli væri varðandi þetta auðlindaákvæði. „Ég tel það ekki bara glatað, það er stórhættulegt. Ég vil miklu frekar hvetja hæstvirtan forsætisráðherra og þingmann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Katrínu Jakobsdóttur, til að nýta sína pólitísku inneign til að fá hennar kæru vini í Sjálfstæðisflokknum til að skipta um skoðun, segja við þá: Kæru vinir. Breytum þessu og höfum þetta algerlega ótvírætt, að það þurfi tímabundna samninga til þess að vera með afnot og aðgang að auðlindum þjóðarinnar. Gerum þetta ótvírætt, kæru vinir. En hún vill ekki nýta þessa inneign sína í þetta, gott og vel.“
Vildi hún undirstrika að hún teldi mjög mikilvægt að þingmenn fengju tækifæri til að ræða stjórnarskrána áfram í þingsal.
„Ég tel tækifæri til að taka ákveðin skref. Já, það á víst eftir að vinna ákveðna þætti og mér hefði þótt meiri bragur á því ef nefndin hefði verið komin lengra. En ég held engu að síður að það sé enn svigrúm og enn tækifæri einmitt til að taka einhver skref varðandi stjórnarskrána í sæmilegri sátt og þá er ég að tala um íslenskuákvæðið, umhverfisákvæði og síðan hinn títtnefnda II. kafla stjórnarskrár sem er kenndur við forsetann.“
Dapurlegt að stjórnarskrá Íslands sé þögul með öllu um umhverfis- og náttúruvernd
Katrín svaraði í annað sinn og sagði að ekki stæði á henni í þessu máli og hefði hún sagt það margítrekað að hún teldi mjög mikilvægt að ná fram einhverjum breytingum á stjórnarskrá.
„Ég tel margar þeirra breytinga sem eru lagðar þarna til þess eðlis að um þær ætti að geta verið samstaða. Auðvitað er dapurlegt að stjórnarskrá Íslands sé til dæmis þögul með öllu um umhverfis- og náttúruvernd, ein stjórnarskráa á Norðurlöndum. Ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd næði saman um að afgreiða slíkt ákvæði þá myndi ég vera fullkomlega til í þá umræðu sem og þær breytingar sem háttvirtur þingmaður vísar hér til og þær þurfa ekki allar að koma til atkvæða ef fólk metur þær ekki allar skynsamlegar.
En þó hefur mér heyrst að það geti verið töluverður samhljómur um ýmsar þær breytingar sem eru lagðar til í forsetakaflanum, ekki allar, gott og vel. Ég hef hvatt framsögumann málsins og formann nefndarinnar til að vinna að því einmitt að kanna það algerlega til botns hvort ekki sé unnt að ná samstöðu um einhver ákvæði þannig að þetta verkefni hreyfist og þannig að stjórnarskráin verði til dæmis ekki þögul áfram um umhverfis- og náttúruvernd sem er eitt stærsta mál samtímans,“ sagði hún.