Landamæravarnir Taívans brustu eftir nær algjört smitleysi frá upphafi faraldurs

Fyrsta alvöru bylgja kórónuveirufaraldursins hefur gert strandhögg í Taívan og náð töluverðri útbreiðslu. Eyríkið, sem hafði verið smitlaust meira og minna frá því í upphafi faraldursins, glímir nú við erfiða stöðu, en um 3 prósent íbúa eru bólusett.

Flokkur hermanna með sótthreinsibúnað að vopni bíður sig hér undir að leggja til atlögu gegn veirunni á lestarstöð í Taipei undir lok síðasta mánaðar.
Flokkur hermanna með sótthreinsibúnað að vopni bíður sig hér undir að leggja til atlögu gegn veirunni á lestarstöð í Taipei undir lok síðasta mánaðar.
Auglýsing

Eyríkið Taívan hefur verið svo gott sem smitlaust frá því að kórónuveirufaraldurinn fór að breiðast út um heiminn í upphafi síðasta árs. Stífar hömlur hafa verið á landamærum og allir sem þangað koma hafa þurft að undirgangast stífa sóttkví.

Þetta hefur skilað miklum árangri og hafa sögur af velgengni Taívana í slagnum við veiruna borist víða, meðal annars til lesenda Kjarnans, ekki síst umræða hefur skapast hér á landi um þá mismunandi valkosti sem eyríki hafa til þess að bregðast við útbreiðslunni.

Þorsteinn Kristinsson doktorsnemi, sem hefur verið staddur í Taívan í fleiri mánuði frá því að faraldurinn fór af stað, hefur miðlað öfundverðum lýsingum á því hversu eðlilegt lífið í Taívan hefur verið undanfarin misseri.

„Veitingastaðir og eru opnir og troðfullir alla daga. Þeim var aldrei gert að loka. Barir og skemmtistaðir hafa að mestu leyti fengið að starfa óbreytt. Og já, þeir fá að vera opnir langt fram á nótt. Fyrirtæki og stofnanir starfa flest án takmarkana. Að frátöldum nokkrum vikum í vor hafa sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verið opnar,“ skrifaði Þorsteinn meðal annars í grein sem birtist í Kjarnanum 14. ágúst í fyrra, þegar ný bylgja var að rísa á Íslandi.

Taívan hefur verið öfundað af þessari velgengni, enda smitin fá, dauðsföll sömuleiðis og raskið á samfélaginu og daglegu lífi fólks með allra minnsta móti.

Upprisa faraldurs um miðjan maí

En nú er heldur betur komið babb í bátinn. Smit láku inn í samfélagið með flugáhöfn í aprílmánuði (skömmu eftir að slakað var á sóttkvíarreglum fyrir flugáhafnir) og síðan þá hafa fleiri en 11 þúsund smit greinst og 260 manns látið lífið í þessu rúmlega 23 milljóna manna samfélagi, langflest eftir miðjan maí.

Þróun nýrra daglegra smita í Taívan frá því að faraldurinn hófst síðasta vetur. Mynd: Google/CSSE

Frá upphafi faraldurs og þar til í byrjun maí höfðu einungis rúmlega 1.100 smit greinst og 12 manns látið lífið. Staðan er því gjörbreytt á skömmum tíma.

Samkvæmt umfjöllun Guardian um þessa fyrstu alvöru bylgju faraldursins í Taívan virðist ríkisstjórn eyríkisins ekki fyllilega hafa búið sig undir að veiran gæti farið á verulegt flug þar innanlands. Nokkrum sinnum hafi munað litlu um að samfélagssmit færi af stað, en ávallt hafi tekist að grípa nægilega fljótt inn í með smitrakningu.

Auglýsing

Núna hins vegar er veiran víða um samfélagið, á allt öðrum skala en nokkru sinni áður og þá hefur komið í ljós að að Taívan er ekki með innviði til staðar til þess að framkvæma umfangsmiklar fjöldaskimanir fyrir veirunni innanlands.

Það viðurkennir sóttvarnastofnun ríkisins sjálf, samkvæmt umfjöllun Guardian. „Á sama tíma og við höfum náð árangri í vörnum á landamærum er tvímælalaust ráðrúm til þess að gera betur í varnaraðgerðum innanlands,“ hefur fréttaritari blaðsins í Taipei eftir stofnuninni.

Lítið búið að bólusetja

Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að bregðast ekki hraðar við mögulegu samfélagssmiti og kæfa það í fæðingu. Í grein í tímaritinu Foreign Policy gagnrýnir blaðamaður í Taívan ríkisstjórnina fyrir að hika við að grípa til þess ráðs að setja viðbúnað á hæsta stig og biðja fólk að halda sig heima — og einnig fyrir að hafa lítið gert til þess að tryggja landsmönnum bóluefnaskammta, en einungis er búið að bólusetja um 3 prósent íbúa í Taívan að minnsta kosti einu sinni.

Stjórnvöld í Taívan þar hafa reyndar sakað Kínverja um að gera þeim erfitt fyrir varðandi öflun bóluefna, sérstaklega hvað varðar samning um bóluefni frá Pfizer og BioNTech. Sá samningur var á lokametrunum, að sögn forseta landsins, er Kínverjar „skiptu sér af.“ Þessu neita kínversk yfirvöld.

Bandarísk stjórnvöld hyggjast senda Taívönum 750 þúsund bóluefnaskammta á næstu dögum í ljósi þess hve þörfin þar í landi fyrir bólusetningu viðkvæmra hópa er orðin brýn vegna gjörbreyttrar stöðu faraldursins.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiErlent