„Einstakt, sænskt bragð,“ segir í auglýsingum frá fyrirtækinu Orkla sem framleiðir hinn sænska Kalles kavíar. Í auglýsingunum eru sýnd myndskeið af fólki sem fær að smakka kavíarinn og finnst hann vondur á bragðið. „Gaur, þú ættir ekki að gefa fólki þetta að borða,“ segir Bandaríkjamaður einn sem fær brauðbita með kavíar að smakka.
Áferð kavíarsins er ekki allra. Hann er framleiddur úr þorskshroknum, lítur út eins og blátt tannkrem þegar hann er kreistur út túbunni og kavíarnum ætti ekki að rugla saman við rússneskan gæðakavíar, segir í umfjöllun New York Times um frumlega auglýsingaherferð kavíarsframleiðandans. Fram kemur að árlega seljast um 3,300 tonn af Kalles-kavíar í Svíþjóð. Oftast ratar kavíarinn ofan á sneiðar af soðnum eggjum.
Auglýsingar Kalles hafa verið til sýningar í Svíþjóð í rúmt ár en þær eru meðal annars teknar upp í Kaliforníu, Sviss og Japan. „Við vildum sýna skilningsleysi annarra þjóða þegar kemur að mjög sænsku bragði eins og Kalles. Við vildum sýna Svíum að þeir eru einstakir og eiga að vera stoltir af vörumerkinu og bragðinu,“ segir markaðsstjóri Kalles í lauslegri þýðingu.
Hér að neðan má horfa á auglýsingarnar. Síðasta auglýsingin, og jafnframt sú nýjasta, er tekin upp í New York borg og er að nokkru leyti frábrugðin hinum fyrri.