Auglýstum fasteignum á fasteignavef Morgunblaðsins hefur fækkað um 23 prósent á einu ári, þ.e. milli september 2014 og september 2015. Í þeim mánuði í fyrra voru að meðaltali um 3912 eignir auglýstar samanborið við einungis um 3024 í september 2015. Mestur er samdrátturinn á auglýstum einbýlis-, rað- og parhúsum, eða ríflega 30 prósent. Samdráttur á auglýstum fjölbýlisíbúðum og hæðum nemur rúmlega 20 prósentum.
Þetta má sjá í hagvísum Seðlabanka Íslands sem birtir voru í síðustu viku. Þróunina á auglýstum fasteignum til sölu má sjá hér að neðan. Samdrátturinn er einkum merkjanlegur frá síðustu mánuðum árs 2014.
Auglýsing
Fasteignaverð hefur farið ört hækkandi undanfarin tvö ár og nemur hækkun síðustu tólf mánaða rúmlega átta prósentum á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt mælingum Þjóðskrár. Einn helsti þáttur sem drífur hækkanir eru skortur á framboði. Fjöldi auglýstra fasteigna til sölu bendir til að þeim hafi fækkað verulega að undanförnu.